Samstarf á milli Háskólans á Akureyri og Náttúrufræðistofnunar Íslands


Þorsteinn Gunnarsson, rektor HA, og Jón Gunnar Ottósson, forstjóri NÍ, undirrita samstarfssamningana. Ljósm. Kjartan Birgisson.

 

 

Í fyrri samningnum, almennum rammasamningi, er fjallað um að verkefni Náttúrufræðistofnunar og rannsóknir og kennsla Háskólans tengjast á margan hátt. Samstarfsaðilarnir hafa sameiginlega hagsmuni af því að efla rannsóknir á náttúru landsins, að rannsóknastarfið sé af þeim gæðum sem best gerist, efla menntun í viðkomandi greinum vísinda, auka kynningu á íslenskum umhverfismálum, samnýta sem best aðstöðu og færni sem til er á hvorum stað og sameinast um uppbyggingu eftir því sem við á.

 

 

 

 

Til þess að ná ofangreindum markmiðum munu samningsaðilar eiga samstarf um eftirfarandi:

  • Að efla kennslu á háskólastigi á sviði náttúruvísinda.
  • Að vekja áhuga nemenda á fræðasviðum og rannsóknum Náttúrufræðistofnunar.
  • Að stuðla að því að á Náttúrufræðistofnun starfi sérfræðingar með hæfni til kennslu á háskólastigi, sem sinni kennslu við Háskólann auk rannsóknastarfa á vegum Náttúrufræðistofnunar. Sérfræðingar Náttúrufræðistofnunar, með vinnu­skyldu við Háskólann, hafi aðgang að framgangskerfi og rannsóknasjóðum HA.
  • Að gera sérstaka samninga um kennslu og þjálfun nemenda eftir því sem tilefni gefst til.
  • Að leggja áherslu á verkefni sem fela í sér uppbyggingu nýrrar færni, sem vænta má að gagnist við rannsóknir á íslenskri náttúru en hafa jafnframt vísindalegt gildi og tengjast eðlilegu starfi háskóla og/eða Náttúrufræðistofnunar.
  • Að semja um samnýtingu á rannsóknatækjum og aðstöðu.

 

 

Markmið síðari samningsins er svo öllu sértækara. Það er að efla formlegt samstarf milli Náttúrufræðistofnunar og Háskólans á Akureyri á sviði sameindaerfðafræði og er samstarfið fólgið í að reka sameiginlega rannsókna­stofu í sameindaerfðafræði. Einnig deila samningsaðilar með sér sérfræðingi sem er umsjónarmaður rannsóknastofunnar.