Aldurshlutföll rjúpu á veiðitíma 2007

Niðurstöður eru birtar jafnóðum hér á vef NÍ en þær verða meðal annars notaðar við mat á stofnstærð rjúpunnar í landinu.

Fyrstu niðurstöður frá veiðitíma 2007: Samtals er búið að aldursgreina 278 fugla og eru allir af Norðausturlandi. Hlutfall ungfugla af heildinni er 75%. Stefnt er að því að aldursgreina 400−500 fugla úr hverjum landshluta, þannig að mikið vantar enn uppá fullt sýni.

Sendið vængina til NÍ
Sérfræðingar Náttúrufræðistofnunar hafa um áratuga skeið rannsakað aldurshlutföll í rjúpnaafla. Á lit flugfjaðra rjúpunnar er hægt að greina á milli tveggja aldurshópa, fugla á fyrsta ári og eldri fugla. Þessi gögn eru m.a. notuð til að reikna út heildarstofnstærð rjúpunnar í landinu. Veiðimenn, sem tilbúnir eru að taka þátt í þessari könnun, eru beðnir um að klippa annan vænginn af öllum þeim rjúpum sem þeir fella. Fuglum af sama veiðisvæði eða úr sömu sveit ber að halda sér í poka þannig að hægt sé að sundurgreina sýnin eftir landshlutum.

Vængina á að senda til:

Náttúrufræðistofnun Íslands
Pósthólf 5320
125 Reykjavík

Stofnunin mun greiða sendingarkostnað sé þess óskað. Menn eru beðnir um að láta nafn sitt og heimilisfang fylgja með sýnum þannig að hægt sé að senda þeim, sem það vilja, niðurstöður greininga úr þeirra sýni og heildarniðurstöðurnar í lokin.


Flugfjaðrir á fyrsta árs fugli. Ljósm. Erling Ólafsson.

Litur flugfjaðra segir til um aldur
Til að aldursgreina rjúpur bera menn saman lit á flugfjöður nr. 2 og flugfjöður nr. 3 (talið utan frá). Fjaðurstafurinn sjálfur er alltaf dökkur hjá íslenskum rjúpum óháð aldri, en við erum að bera saman litinn á föninni sjálfri, ekki fjaðurstafnum. Hjá fuglum á 1. ári er flugfjöður nr. 2 dekkri en nr. 3 eins og hér sést. Ef smellt er á myndina hér til hægri, sést samanburðurinn. Hjá fullorðnum fuglum, fuglum á 2. ári og eldri, eru fjaðrir nr. 2 og 3 jafndökkar eða nr. 3 dekkri. Hjá sumum fullorðnum fuglum eru engin litarefni í fönum flugfjaðra nr. 2 og 3.