Þjóðargjöf á faraldsfæti

Á afmæli 1100 ára byggðar á Íslandi árið 1974 tilkynnti Roger Morton fulltrúi Bandaríkjanna að ríkisstjórn sín myndi gefa Íslandi sneið af risafuru (Sequoiadendron giganteum) sem hluta af afmælisgjöf. Hugmyndin að þessari þjóðargjöf átti rætur að rekja til þess að nokkru áður hafði Náttúrufræðistofnun Íslands beðið sendiráð landsins í Washington að kanna möguleika á að stofnunin fengi slíkan grip frá Þjóðgarðsstofnun Bandaríkjanna. Risafurusneiðar þóttu og þykja enn kjörgripir og eru eftirsóttir hjá söfnum víða um heim. Síðar var staðfest að þessi þjóðargjöf var ætluð Náttúrufræðistofnun Íslands.

Roger Morton hafði risafurusneiðina ekki með sér enda átti eftir að forverja hana og koma í sýningarhæft ástand. Risafurusneiðin var tekin úr felldu tré í Sequoiaþjóðgarðinum í Kaliforníu, en forvarsla tafðist í Bandaríkjunum vegna fjárskorts þar í landi og fór svo að hún fúnaði og var að lokum söguð niður í eldivið.


Rúmlega 1.300 ára gamall rauðviður frá Kaliforníu. Sneiðin er 2,42 m í þvermál og vegur rúmt tonn. Ljósm. Snorri Baldursson.

Í lok árs 1983 skrifar Náttúrufræðistofnun forsætisráðuneytinu og spyrst fyrir um afdrif þjóðargjafarinnar. Utanríkisráðuneytið hafði samband við stjórnvöld í Bandaríkjunum og var þá hafist handa við að finna leið til að efna loforðið um risafurusneið. Ekki tókst að hafa upp á nothæfri risafurusneið, en málið var leyst með því að taka sneið úr 1.300 ára gömlum rauðvið (Sequoia sempervirens) úr landi Skógastofnunar Bandaríkjanna norðan Klamathár í Kaliforníu. Sneiðin var flutt til Íslands og meðhöndluð eftir kúnstarinnar reglum. Í nóvember 1985 afhenti Nicholas Ruewe þáverandi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi Steingrími Hermannssyni þáverandi forsætisráðherra gjöfina frá 1974 í Háskólabíói þar sem hún skyldi vera til sýnis. Þegar gjöfin var afhent las Ruewe sendiherra upp ávarp frá Ronald Reagan forseta Bandaríkjanna. Við sama tækifæri afhenti Steingrímur Náttúrufræðistofnun Íslands sneiðina til varðveislu.

Ákveðið var að furusneiðin yrði varðveitt í Háskólabíói þar til Náttúrufræðistofnun fengi húsnæði til umráða þar sem hægt yrði að sýna þessa þjóðargjöf. Nú 22 árum síðar getur Háskólabíó ekki lengur hýst sneiðina og Náttúrufræðistofnun er enn ekki í stakk búin til að taka við henni með sómasamlegum hætti. Því hefur verið ákveðið að fela nýstofnuðu Náttúruminjasafni Íslands umsjón með sneiðinni. Þar til nýtt Náttúruminjasafn Íslands ris af grunni er samkomulag um að vista sneiðina hjá Náttúrufræðistofu Kópavogs þar sem hún verður til sýnis fyrir almenning.