Rannsóknir í Surtsey styrktar af Toyota á Íslandi


Magnús Kristinsson stórnarformaður Toyota á Íslandi og Jón Gunnar Ottósson forstjóri NÍ takast í hendur eftir að hafa undirritað samninginn. Ljósm. Ágúst Ú. Sigurðsson

Surtsey hefur verið vöktuð síðan gosinu lauk. Jarðvísindamenn hafa einkum fylgst með kólnuneyjarinnar, móbergsmyndun, sjávarrofi og landmótun. Líffræðingar hafa farið til Surtseyjar um miðjan júlí ár hvert og leitað að nýjum tegundum plantna, smádýra og fugla. Þeir hafa fyglst náið með þróun lífríkisins sem hefur tekið miklum stakkaskiptum á síðustu árum eftir að þétt mávabyggð tók að myndast í eynni. Á hverju ári finnast þar nýjar tegundir og lífríkið verður fjölbreyttara. Allar líkur eru á að sú þróun haldist áfram næstu áratugina og að lífríki Surtseyjar taki á sig svipaða mynd og í öðrum úteyjum Vestmannaeyja.

Sýningin Surtsey - jörð úr ægi stendur nú yfir í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu. Sýningin rekur myndunar- og þróunarsögu Surtseyjar fram til dagsins í dag og spáir fyrir um framtíð eyjarinnar og þróun lífríkis hennar næstu 120 árin. Á sýningunni er beitt nýjustu sýningartækni og margmiðlun við kynningu á ómetanlegum niðurstöðum vísindarannsókna í Surtsey. Henni er ætlað að höfða jafnt til forvitinna barna sem fræðimanna og þess er vænst að gestir skynji kraft eldsumbrotanna um leið og þeir fræðast um eðli þeirra og sköpunarverk. Fjölmargir vísindamenn, hönnuðir, hugbúnaðarsmiðir og tæknimenn hafa komið að undirbúningi sýningarinnar. Hún styðst m.a. við einstakar ljósmyndir og kvikmyndir sem teknar hafa verið af Surtseyjareldum og í eynni frá upphafi og fram á þennan dag. Gert er ráð fyrir að sýningin verði síðar flutt til Vestmannaeyja og sett upp í nýrri Surtseyjarstofu sem þar mun rísa árið 2008.

Í tilefni af undirritun samningsins í dag er aðgangur ókeypis á sýninguna til 19. júní í boði Toyota á Íslandi.