Ráðstefna sérfræðihóps Bernarsamnings um ágengar framandi tegundir haldin á Íslandi

Minkur, lúpína og skógarkerfill

Dæmi um ágengar framandi tegundir hér á landi eru minkur, lúpína og skógarkerfill. Fundurinn er haldinn á vegum Bernarsamningsins um verndun villtra plantna og dýra og lífsvæða í Evrópu, en þessi nefnd kemur saman annað hvert ár.

Aðalefni ráðstefnunnar er að fjalla um það hvernig til hefur tekist að framfylgja stefnumörkun og aðgerðaráætlun gegn útbreiðslu ágengra tegunda í Evrópu sem samþykkt var árið 2003. Á ráðstefnunni verður einnig fjallað um NOBANIS-verkefnið, vinnu Norður- og Eystrasaltslandanna við að taka saman lista og upplýsingar um slíkar tegundir og vinnu Evrópsku umhverfissstofnunarinnar og Alþjóða náttúruverndarsamtakanna við að þróa mælikvarða og vísitölur til að meta stöðu þessa vandamáls á svæðis- og heimsvísu. Á ráðstefnunni heldur dr. Sigurður H. Magnússon, Náttúrufræðistofnun Íslands, erindi um ágengar framandi tegundir á Íslandi og dr. Páll Hersteinsson, Háskóla Íslands fjallar um framkvæmd áætlunar um að eyða mink hér á landi.



Gosið í Surtsey 5. febrúar 1964. Ljósm. Sigurður Þórarinsson.



Gosið í Surtsey 5. febrúar 1964. Ljósm. Sigurður Þórarinsson.

Skógarkerfill í Esjuhlíðum.Ljósm. Sigurður H. Magnússon Minkur. Ljósm. Jóhann Óli Hilmarsson.

Bernarsamningurinn er svæðisbundinn samningur í vörslu Evrópuráðsins í Strasbourg í Frakklandi. Aðildarríki eru 45, aðallega Evrópulönd en einnig nágrannalönd í Norður-Afríku þar sem eru sameiginlegar dýrategundir með Evrópu. Evrópusambandið á einnig aðild að samningnum. Markmið samningsins eru að vernda evrópskar tegundir villtra plantna og dýra og lífsvæði þeirra og að stuðla að fjölþjóðlegri samvinnu þar sem hennar er þörf til að vernda tegundir villtra plantna, dýra og lífssvæða. Samningurinn var gerður í Bern í Sviss 19. september 1979 og öðlaðist gildi 1. júní 1982. Ísland fullgilti samninginn árið 1993. Umhverfisráðuneytið hefur umsjón með samningnum í samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands, en Náttúrufræðistofnun hefur sinnt honum fyrir hönd ráðuneytisins. Jón Gunnar Ottósson forstjóri NÍ hefur frá 1993 verið fulltrúi Íslands í fastanefnd samningsins.