Mosafræðingur frá Svíþjóð í heimsókn á N.Í.


Gróa Valgerður Ingimundardóttir líffræðingur ásamt Henrik Weibull. Ljósm. Erling Ólafsson.

Henrik Weibull lauk doktorsprófi frá Landbúnaðarháskólanum í Uppsölum árið 2000 eftir rannsóknir á mosum á klöppum og grjóti í skógarbotnum. Henrik hefur undanfarin ár tekið þátt í að skrifa nýja mosaflóru á vegum „Artdatabanken“ í Svíþjóð, en hún er hluti af einkar metnaðarfullri ritröð sem nefnist „Þjóðarlykillinn að flóru og fánu Svíþjóðar“.

Fyrsta bindið um mosa kom út á síðastliðnu ári (2006), en Henrik færði Náttúrufræðistofnun bók þessa að gjöf. Einnig hafa komið út í ritröðinni tvær bækur um fiðrildi og ein um þúsundfætlur. Margar bækur eru í vinnslu hjá hæfustu sérfræðingum. Bókin um mosana er hin fyrsta af fjórum til fimm bókum sem gefnar verða út um baukmosa. Í henni er fjallað um 18 ættir baukmosa og tíundaðar allar tegundir þeirra sem finnast á Norðurlöndum. Þar má sjá vandaðar ljósmyndir, teikningar og lýsingar af hverri tegund ásamt útbreiðslukortum, en Bergþór heitinn Jóhannsson mosafræðingur miðlaði upplýsingum um útbreiðslu mosa á Íslandi til höfunda.

Hitakærir mosar á Íslandi


Fyrsta bindi af fimm í Mosaflóru Svía.

Að sögn Henriks finnast um 10 norrænar mosategundir aðeins á Íslandi og eru þær flestar bundnar við búsvæði sem tengjast jarðhita eða eldfjallaumhverfi. Henrik fór í vettvangsskoðun um Reykjanes í ferðinni og skoðaði mosa, m.a. við Kleifarvatn og hverina á Reykjanesi. Í ferðinni sá hann í fyrsta sinn sverðmosa (Bryoxiphium norvegicum), sem finnst ekki annars staðar í Evrópu en hér á landi. Sverðmosi finnst annars í N-Ameríku, á Grænlandi og austanverðri Asíu. Hér vex sverðmosi „næstum alltaf á móbergi, oft í hellum og skútum, skorum og gjótum“, eins og segir í umfjöllun Bergþórs um tegundina (Fjölrit Náttúrufræðistofnunar nr. 20). Svo skemmtilega vill til að sverðmosi er ein af þeim tegundum sem fjallað er um í nýju mosabókinni.

Þá daga sem Henrik dvaldi á Náttúrufræðistofnun fékkst hann aðallega við greiningar á mosum frá háhitasvæðum. Í mosasýnunum hefur hann séð margt sem er honum framandi bæði hvað varðar tegundir og samfélög mosa, en hár yfirborðshiti og efnasamsetning jarðvegs skapar óvenjuleg búsvæði og flóru sem er fáséð annars staðar. Þetta var fyrsta heimsókn Henriks til Íslands en hann hefur áhuga á að viðhalda tengslunum við stofnunina, vera innan handar við greiningar á mosum og kenna til verka. Gróa Valgerður Ingimundardóttir, líffræðingur á Náttúrufræðistofnun, var Henrik til aðstoðar.