Páfiðrildi (Aglais io)

Útbreiðsla

Evrópa norður til miðbiks Skandinavíu og suður til Miðjarðarhafs, austur um tempruð belti Asíu til Japans; Færeyjar.

Ísland: Páfiðrildi er slæðingur á Íslandi sem hefur fundist á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. í Reykjavík, Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði og Mosfellsbæ, einnig í Þorlákshöfn, á Skagaströnd og Siglufirði.

Lífshættir

Í nágrannalöndunum koma páfiðrildi úr púpum eftir miðjan júlí og nær fjöldinn hámarki í fyrrihluta ágúst. Flugtíminn teygir sig langt fram á haustið en verulega dregur úr fjöldanum snemma í september þegar fiðrildin taka að koma sér fyrir til að leggjast í vetrardvala. Páfiðrildið er nefnilega ein fárra tegunda af þessu tagi sem þreyja vetur á fullorðinsstigi. Fyrstu fiðrildin taka svo að vakna á ný þegar sól skín í mars. Karldýrin helga sér þá staði þar sem brenninetlur (Urtica dioica) vaxa, laða til sín kvendýr og fiðrildin makast. Kvendýrin verpa svo allt að 500 eggjum neðan á efstu netlublöðin sem lirfurnar nærast síðan á. Lirfurnar halda sig margar saman í vef sem þær spinna um sig og verður lirfuhjörðin afar áberandi efst á netlunum. Við áreiti verja lirfurnar sig með því að gefa frá sér ólystuga græna vökvadropa og sýna ógnvekjandi atferli. Fullvaxnar koma þær sér fyrir í undirgróðrinum eða nálægum runnum til að púpa sig. Síðsumars leita páfiðrildin uppi flestar blómstrandi og vel lyktandi plöntur hvar sem slíkar vaxa og eru þar mikið augnayndi, m.a. annars í húsagörðum og skrúðgörðum.

Almennt

Engin dæmi eru til þess að páfiðrildi hafi borist til landsins á eigin vængjum með vindum og engar grunsemdir um að slíkt gæti hafa hent. Fyrsti skráði fundur er frá árinu 1938 en páfiðrildi hafa fundist hér flest ár síðustu fjóra áratugina, eitt til fáein á ári, flest sjö árið 1996. Flest hafa borist hingað síðsumars eða á venjulegum flugtíma tegundarinnar í nágrannalöndunum. Þau finnast ekki síst í nágrenni skipahafna. Einnig verður páfiðrilda vart af og til í vöruskemmum að vetrarlagi eftir að hafa borist með varningi þar sem þau hafa valið sér stað til vetrarvistar, eins og t.d. í dekkjum sem veita gott skjól.

Páfiðrildi eru stór og einkar falleg fiðrildi með mikið vænghaf og einkennandi litmynstur á ryðrauðum vængjum. Hringlaga blettir fanga augu áhorfandans, einn á hverjum væng, með bláum lit svo helst minnir á augu eða bletti á fögru stéli páfuglshana. Af þeirri samlíkingu er heiti fiðrildisins dregið á íslensku og fleiri tungum.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Erling Ólafsson & Hálfdán Björnsson 1997. Fiðrildi á Íslandi 1995. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 32. 136 bls.

Jensen, J.-K. & H.E. Sivertsen 2010. Firvaldar. 155 ymiskir firvaldar í Føroyum. Føroya Skúlabókagrunnur, Thórshavn. 207 bls.

Stoltze, M. 1996. Danske dagsommerfugle. Gyllendal, Kaupmannahöfn. 383 bls.

Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 193 bls.

Höfundur

Erling Ólafsson 14. september 2010, 19.9.2016

Biota

Ríki (Kingdom)
Dýr (Animalia)
Fylking (Phylum)
Liðdýr (Arthropoda)
Undirfylking (Subphylum)
Sexfætlur (Hexapoda)
Flokkur (Class)
Skordýr (Insecta)
Ættbálkur (Order)
Fiðrildi (Lepidoptera)
Ætt (Family)
Dröfnufiðrildaætt (Nymphalidae)
Tegund (Species)
Páfiðrildi (Aglais io)