Trjónufluga (Thricops rostratus)

Útbreiðsla

Norður-Skandinavía, Bretland, Færeyjar, fjalllendi Mið- og Suður-Evrópu.

Ísland: Landið suðvestanvert, frá Patreksfirði austur í Hornafjörð.

Lífshættir

Trjónufluga finnst í margskonar vel grónu þurrlendi, mjög gjarnan í byggð, görðum, gróðurríkum vegköntum og gróðurbrekkum við sveitabæi, situr oft á húsveggjum og girðingum. Þegar bílum er lagt utan byggðar setjast trjónuflugur iðulega á þá áður en langur tími líður. Flugtími er allt frá byrjun júní til loka ágúst en mest áberandi eru flugurnar á miðju sumri. Væntanlega alast lirfur upp í jarðvegi en ekki er vitað á hverju þær nærast.

Almennt

Tegundin gæti hafa borist til landsins um miðja síðustu öld. Hennar hafði hvergi verið getið héðan þegar nokkur eintök fundust undir Eyjafjöllum og á Heimaey á miðjum sjöunda áratug aldarinnar í tengslum við úttekt á smádýralífi baklands Surtseyjar. Í framhaldinu fóru trjónuflugur að finnast víðar um sunnan- og suðvestanvert landið og nær þekkt útbreiðslusvæði nú allt vestur til Patreksfjarðar og austur í Hornafjörð. Þess má vænta að allt láglendi verði undir innan ekki langs tíma.

Trjónufluga (7 mm) er dæmigerð tegund húsfluguættar, einlit grásvört á lit, langfætt og kvik þegar sól skín. Hún er þó auðþekktari en margir ættingjarnir þar sem höfuðið er einkennandi, munnrönd myndar framteygða trjónu.

Útbreiðslukort

Heimildir

Lindroth, C.H., H. Andersson, Högni Böðvarsson & Sigurður H. Richter 1973. Surtsey, Iceland. The Development of a New Fauna, 1963–1970. Terrestrial Invertebrates. Ent. scand. Suppl. 5. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 280 bls.

Höfundur

Erling Ólafsson, 18. október 2022.

Ríki (Kingdom)
Dýr (Animalia)
Fylking (Phylum)
Liðdýr (Arthropoda)
Undirfylking (Subphylum)
Sexfætlur (Hexapoda)
Flokkur (Class)
Skordýr (Insecta)
Ættbálkur (Order)
Tvívængjur (Diptera)
Ætt (Family)
Húsfluguætt (Muscidae)
Tegund (Species)
Trjónufluga (Thricops rostratus)