Asparglytta (Phratora vitellinae)

Útbreiðsla

Norður- og Mið-Evrópa suður á norðanverðan Balkanskaga

Ísland: Suðvesturland, frá höfuðborgarsvæðinu upp í Kjós, austur að Laugarvatni og Hellu, einnig Skaftafell.

Lífshættir

Asparglytta finnst í skógum og görðum með þéttvöxnum öspum (Populus) og víðitrjám (Salix). Fullorðnar bjöllur taka að vakna af vetrardvala upp úr miðjum apríl og safnast saman á stofnum og greinum aspa og víðitrjáa. Þær ná mestum fjölda í júní og taka strax til við að éta laufblöðin þegar brum opnast. Þær kjósa ný blöð á greinaendum. Eftir að bjöllurnar hafa byggt sig upp í um vikutíma fer mökun fram og viku síðar fara kvendýrin að verpa á þroskaðri laufblöðin sem lirfurnar nýta. Samkeppni um fæðu er því lítil á milli lirfa og bjallna og hýsilplantan vel nýtt. Lirfurnar raða sér gjarnan saman hlið við hlið, skríða áfram í hersingu og spæna í sig mjúka vefi laufblaðsins. Þær vaxa upp á tveim til þrem vikum, láta sig síðan falla til jarðar og púpa sig eftir nokkra daga í hulstri sem þær byggja um sig. Púpustigið varir í um átta daga. Ný kynslóð bjallna klekst. Í Evrópu geta þrjár kynslóðir þroskast yfir sumarið. Ekki er kunnugt um fjölda kynslóða hér á landi, en fullorðnar bjöllur finnast á ferli allt sumarið og fram yfir miðjan október. Þá leggjast þær í dvala, gjarnan undir trjáberki eða hvar sem skjól er að finna. Lirfurnar verða sér úti um vörn gegn rán- og sníkjudýrum með því að taka til sín sykrur úr fæðuplöntunni (einkum salicin og salicortin) og umbreyta þeim í salicylaldehyð sem er eitrað. Efnið á skylt við aspirín.

Almennt

Asparglytta er nýlegur landnemi á Íslandi sem fannst fyrst með vissu í ágúst 2005 í trjárækt Skógræktar ríkisins að Mógilsá í Kollafirði. Sumarið eftir hafði henni fjölgað mjög og óheyrilega 2007 svo stórsá á trjágróðri. Mikill skaði varð á alaskaösp (P. trichocarpa) og ýmsum tegundum víðis (Salix). Sama sumar fannst tegundin í Mosfellsbæ og austast í Reykjavík ári síðar. Allt höfuðborgarsvæðið varð síðan undir svo og Kjós. Smám saman barst asparglyttan austur fyrir fjall og er orðin algeng allt til Laugarvatns og var staðfest á Hellu sumarið 2018.  Það sama sumar fannst hún óvænt í þjóðgarðinum í Skaftafelli. Þangað gæti hún auðveldlega hafa borist með farartækjum gesta þjóðgarðsins. Hér er á ferðinni óæskileg meinsemd á öspum og víði sem án efa mun stinga sér niður víðar á komandi árum. Hún er ekki háð görðum okkar því villtur víðir dugar henni ágætlega til framfæris. Asparglytta er vinsælt rannsóknarefni evrópskra fræðimanna.

.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Urban, J. 2006. Occurrence, development and economic importance of Phratora (= Phyllodecta) vitellinae (L.) (Coleoptera, Chrysomelidae). J. For. Sci. 52: 357–385.

Höfundur

Erling Ólafsson, 14. ágúst 2009, 7. ágúst 2018.

Biota

Ríki (Kingdom)
Dýr (Animalia)
Fylking (Phylum)
Liðdýr (Arthropoda)
Undirfylking (Subphylum)
Sexfætlur (Hexapoda)
Flokkur (Class)
Skordýr (Insecta)
Ættbálkur (Order)
Bjöllur (Coleoptera)
Ætt (Family)
Laufbjallnaætt (Chrysomelidae)
Tegund (Species)
Asparglytta (Phratora vitellinae)