Hærubukkur (Callidiellum villosulum)

Útbreiðsla

Kína; Norður-Ameríka, Evrópa, Japan, Tasmanía.

Ísland: Reykjavík.

Lífshættir

Hærubukkur elst upp í trjám, einkum trjátegundum af einiætt (Cupressaceae), til dæmis kínafuru (Cunninghamia lanceolata) og keisaraviði (Cryptomeria japonica). Hann getur einnig farið í furutré (Pinus), eins og sýking í taívanfuru (P. taiwanensis) gefur til kynna. Ein kynslóð þroskast árlega. Fullþroska bjöllur skríða úr púpum á vorin frá mars til maí og verpa í sprungur í trjáberki. Lirfurnar skríða inn undir börk trjánna og vaxa upp þar. Fullvaxnar grafa þær sig inn í tréviðinn, púpa sig þar og liggja púpurnar vetrardvalann.

 

Almennt

Hærubukkur er upprunnin í Kína en hefur á síðustu áratugum dreifst víða um heim, m.a. til Norður-Ameríku, Japans, Tasmaníu og Evrópu þar sem hann fannst fyrst á Möltu. Þess má vænta að tegundin berist í auknum mæli um heiminn með flutningi á allskyns viðarvörum, s.s. trjábolum, pakkningum og smíðagripum, og gæti orðið til vansa í nýjum heimkynnum. Þó hærubukkur kjósi trjátegundir sem ekki vaxa hvarvetna þá getur hann víðast hvar komist í furutré sem gætu gert honum landnám mögulegt. Tegundin lifir ekki á Íslandi en hefur fundist einu sinni en lifandi bjalla fannst í íbúð í Reykjavík í mars 2021. Óvíst var hvernig hún barst en hún var nýklakin og gæti því hafa skriðið út úr nýlega fengnu húsgagni.

Hærubukkur (11 mm) er nær einlitur, hefur rauðbrúna skel stundum með bronslitri áferð, nýklakin eintök með gulleita skjaldvængi, langliðir fóta og fálmarar eru svartir. Allur bolurinn er áberandi hærður, einnig höfuð og fætur.

Útbreiðslukort

Heimildir

Cocquempot, C. & D. Mifsud 2013. First European interception of the brown fir longhorn beetle, Callidiellum villosulum (Fairmaire, 1900) (Coleoptera, Cerambycidae). Bulletin of the Entomological Society of Malta (2013) Vol. 6 : 143-147.

USDA, U.S. Forest Service. Pest Datasheet for Callidiellum villosulum (Fairmaire) [Coleoptera: Cerambycidae]. (https://www.fs.fed.us/foresthealth/publications/Callidiellum_villosulum_APHIS_Fact_sheet.pdf)

Höfundur

Erling Ólafsson, 1. september 2022.

Biota

Tegund (Species)
Hærubukkur (Callidiellum villosulum)