Dverglodda (Trichoniscus pusillus)

Útbreiðsla

Evrópa og Norður-Afríka, innflutt til Madeiru, Asoreyja og Norður-Ameríku.

Ísland: Allra syðst á  landinu, frá Hafnarfirði austur í Hornafjörð, einnig Kleppjárnsreykir í Borgarfirði.

Lífshættir

Dverglodda finnst þar sem rakastig er hátt, t.d. í gróðursverði í laufskógabotnum, undir lurkum og steinum. Í gróðurræktarreitum, undir blómapottum og í rotnandi gróðurleifum, í húsagörðum, blómabeðum, undir hellum og öðru lauslegu. Einnig finnst hún þar sem jarðhita gætir. Hún er á ferli frá vori til hausts.

Almennt

Tvö afbrigði finnast af dvergloddu, annars vegar form sem fjölgar sér kynlaust (pusillus), þ.e. karldýr eru ekki til staðar og verpa kvendýrin ófrjóvguðum eggjum. Þetta form er útbreitt í Mið-Evrópu norður í miðja Skandinavíu. Hitt formið (provisorius) hefur bæði kyn og fjölgar sér með kynæxlun. Það er suðlægara, nær frá Norður-Afríku norður í Mið-Evrópu. Fyrrnefnda norðlæga formið finnst á Íslandi.

Dverglodda er ein algengasta gráloddan í nágrannalöndunum. Hér hefur hún einungis fundist allra syðst á landinu og á jarðhitasvæði í Borgarfirði. Þar sem lífsskilyrði eru góð, t.d. í rotnandi laufi í skógarbotnum eða safnhaugum í görðum og ræktarreitum, getur fjöldinn orðið mikill.

Dverglodda (3,5 mm) er langminnsta tegund grápaddna á Íslandi. Hún er rauðbrún á lit með ljósum yrjum, áferðin gljáandi. Hún hefur tiltölulega stutta fálmara sem henta þar sem hún smeygir sér um í sverði og rotnandi gróðurleifum. Halafætur langir og mjóir. Hún er fljót að koma sér undan verði hún fyrir áreiti. Íslenskar dvergloddur eru kvenkyns og geta þær farið að fjölga sér áður en fullum vexti er náð. Þær verpa fáum stórum eggjum og fer fjöldi eggja í klakpokanum eftir líkamsstærðinni, mest um átta egg.

Útbreiðslukort

Heimildir

Meinertz, T. 1938. Isopoda Terrestria. Zoology of Iceland III, Part 28. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 11 bls.

Oliver, P.G. & C.J. Meechan 1993. Woodlice. Synopses of the British Fauna (New Series) 49. The Linnean Society of London. 135 bls.

Höfundur

Erling Ólafsson 29. september 2016, 30. september 2016

Biota

Tegund (Species)
Dverglodda (Trichoniscus pusillus)