Langleggur (Mitopus morio)

Útbreiðsla

Norðurhvel, frá N-Afríku norður til Svalbarða, Síbería, Kína, N-Ameríka, allar eyjar í N-Atlantshafi, Grænland.

Ísland: Land allt.

Lífshættir

Langlegg er að finna í öllum gróðurlendum, allt frá gróðursnauðum, þurrum melum og söndum í gróðurrík blómlendi, skóga og vota flóa. Þó kýs hann öðru fremur gróðurlendi með gisnum gróðri. Langleggur verpir á haustin og eggin brúa veturinn. Ungviði fer að sjást í apríl og nær kynþroska upp úr miðju sumri. Langleggur er alæta. Hann veiðir önnur smádýr og tínir upp dauð, étur rotnandi plöntuleifar, sveppi og fuglaskít svo dæmi séu tekin.

Almennt

Langleggur er mjög algengur um land allt, frá sjávarströndum og til hæstu fjalla. Hann  er mjög áberandi þar sem fer um á sínum löngu leggjum og er því flestum kunnur. Það er algengur misskilningur að langleggur sé könguló. Hann gegnir mikilvægu hlutverki í vistkerfum vegna fjölhæfni og mikils fjölda. Algengt er að sjá spörfugla safna langleggjum í nefið til að færa ungum í hreiðri. Flestir kannast við að hafa séð langleggi alsetta rauðum dílum, sem raða sér á búk og fótleggi, en það er ungviði langfætlumítla (Leptus beroni) sem taka sér far með langfætlum til að dreifast á nýjar slóðir. Mítlarnir eru burðardýrum sínum ekki til ama.

Vegna löngu leggjanna virkar langleggur stærri en hann er í raun og veru. Bolurinn (4-8 mm) er ekki ýkja stór, egglaga og óskiptur. Bolur og fætur eru oftast ljósbrún á lit, stundum dekkri, á bakinu dekkri brúnn söðull, stundum nánast svartur.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Henriksen, K.L. 1938. Opiliones and Chernetes. Zoology of Iceland III, Part 53. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 9 bls.

Ingi Agnarsson 1998. Íslenskar langfætlur og drekar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 35. 34 bls.

Höfundur

Erling Ólafsson 14. ágúst 2009, 19. desember 2019.

Ríki (Kingdom)
Dýr (Animalia)
Fylking (Phylum)
Liðdýr (Arthropoda)
Undirfylking (Subphylum)
Klóskerar (Chelicherata)
Flokkur (Class)
Áttfætlur (Arachnida)
Ættbálkur (Order)
Langfætlur (Opiliones)
Ætt (Family)
Langleggsætt (Phalangiidae)
Tegund (Species)
Langleggur (Mitopus morio)