Leggjakönguló (Pholcus phalangioides)

Útbreiðsla

Upprunnin í heitabeltislöndum en er nú útbreidd víða um heim og finnst í öllum heimsálfum.

Ísland: Nokkrir fundarstaðir á Suðvesturlandi, þ.e. Reykjavík, Kópavogur, Hafnarfjörður, Krýsuvík, Njarðvík og Akranes, tveir í Hrunamannahreppi og einn í Fljótshlíð.

Lífshættir

Í nágrannalöndunum heldur leggjakönguló sig einkum í tengslum við mannabústaði og starfsemi á mannsins vegum, t.d. á háaloftum, í kjöllurum, geymslum og bílskúrum, á vörulagerum, í gripahúsum og fóðurgeymslum, einnig í hellum. Hér hefur hún einungis fundist innanhúss, allan ársins hring. Hún finnst einkum á vörulagerum og í geymsluhúsnæði, síður í híbýlum. Hún gerir sér veiðivef uppi í loftum og bjálkum og í skúmaskotum. Þó leggjakönguló sé veikbyggð er hún mjög öflugt rándýr sem getur veitt mun stærri dýr en hún er sjálf, t.d. aðrar köngulær og loddur. Í harðindum getur hún lagst á köngulær af eigin tegund. Þegar styggð kemur að hristir hún vef sinn kröftuglega til að stökkva ógnvaldinum á flótta. Leggjakönguló fjölgar sér innanhúss allan ársins hring og kvendýrið ber egg sín, 20–30 talsins, með munnlimunum þar til þau klekjast.

Almennt

Leggjakönguló fannst fyrst í Reykjavík 1988 og í auknum mæli síðan. Þó hún finnist árlega telst hún samt fágæt hér á landi. Hún var lengstum talin reglulegur slæðingur með varningi en fundir á seinni árum benda til þess að hún hafi sest hér að. Það var engan veginn óviðbúið því leggjakönguló er afar algengur fylgifiskur manna í löndum næst okkur. Þó leggjakönguló sé öflug veiðikló er eitrið ekki kröftugt og hún talin skaðlaus mönnum. Ef hún nær að bíta inn úr húð veldur það bara augnabliks sviða.

Leggjakönguló er auðþekkt frá öðrum íslenskum köngulóm af litlum, gulleitum frambol og aflöngum sekklaga, gráleitum afturbol, afar löngum og grönnum, gulum fótleggjum með svörtum og hvítum hnjáliðum en leggirnir geta orðið allt að 7 cm langir. Tegundin verður þó ekki auðveldlega greind frá nákomnum ættingja (Holocnemus pluchei), fágætum slæðingi sem berst hingað með varningi af og til. Fljótt á litið kann leggjakönguló að minna á langlegg (Mitopus morio), fjarskyldan ættingja af ættbálki langfætlna, frekar en aðrar köngulær.

Útbreiðslukort

Heimildir

Ingi Agnarsson 1996. Íslenskar köngulær. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 31. 175 bls.

Wikipedia. Pholcus phalangioides http://en.wikipedia.org/wiki/Pholcus_phalangioides [skoðað 31.3.2010]

Höfundur

Erling Ólafsson 31. mars 2010.

Biota

Tegund (Species)
Leggjakönguló (Pholcus phalangioides)