Leggjaköngulóarætt (Pholcidae)

Almennt

Leggjaköngulær finnast um veröld víða en þekktar eru um 1.500 tegundir af ættinni og deilast þær á um 80 ættkvíslir. Í Evrópu eru 90 tegundir skráðar í 12 ættkvíslum.

Leggjaköngulær hafa lítinn bol, á bilinu 2-10 mm á lengd, og er afturbolur ýmist sívalur eða kúlulaga. Þær hafa einkar langa og granna fótleggi, allt að 50 mm langa og þykja minna umtalsvert á hrossaflugur. Leggirnir eru afar brothættir og þola lítið hnjask. Augun Átta sérstæð augu eru staðsett framan á höfuðbolnum. Miðlægt eru tvö samstæð augu en til hliðar við þau sitt hvoru megin þrjú augu sem mynda þríhyrning. Stundum eru augun þó sex og vantar þá samstæðu augun tvö. Liturinn er brúnn, grábrúnn, grár, fætur stundum með áberandi hvítum beltum.

Köngulærnar spinna stóran, óreglulegan vef ekki síst í myrkri og raka, í húsum uppi á hanabjálkum og í kjöllurum, þar sem umgangur er lítill, eða í hellisskútum, klettum, yfirgefnum jarðgöngum spendýra og svo framvegis. Þar hanga köngulærnar á hvolfi í vef sínum. Á ensku hafa leggjaköngulær fjölmörg alþýðuheiti, m.a. cellar spiders eða kjallaraköngulær ekki án tilefnis.

Vefurinn er ekki límkenndur en bráðin flækist auðveldlega í óreglulegum spunanum. Þar hremmir köngulóin bráðina, pakkar inn í vef og bítur til dauða en eitur hennar þykir sterkt. Þegar stór bráð kemur í vefinn eða hann er snertur af rándýri tekur köngulóin upp á því að titra eins og vitskert. Titringurinn  verður svo mikill að erfitt er fyrir rándýr að festa á hana augu. Sumar tegundir ráðast inn á vefi annarra köngulóa, ræna þær bráð eða drepa þær. En leggjaköngulær eiga sína óvini, m.a. skemmuköngulær sem oft hafast við í sama rými.

Tvær tegundir hafa fundist á Íslandi. Önnur hefur fest sig í sessi í húsum hér, hin telst slæðingur en var þó viðloðandi í ákveðnu geymsluhúsnæði um tíma.

Höfundur

Erling Ólafsson 1. febrúar 2017.

Biota