Jafnfætlur (Isopoda)

Almennt

Þó krabbadýr séu fyrst og fremst lagardýr þá hafa margar tegundir aðlagast landlífi. Á Íslandi finnast landkrabbar af ættbálki jafnfætlna (Isopoda), svokallaðar grápöddur og eru þær allar náskyldar og líkar útlits. Hina kunnu þanglýs í sjó og þangfjörum eru af þessum sama ættbálki.

Grápöddur hafa tiltölulega lítinn haus með fálmurum, bitmunni og augum sem eru misáberandi eftir tegundum. Bolurinn er sporöskjulaga og greinilega liðskiptur. Grápöddur hafa sjö pör fóta. Þær anda með eins konar lungum og eru þær með tvö til fimm pör slíkra á milli fóta. Þær tegundir sem hafa flest lungu geta komist lengur af í þurrki en hinar sem færri lungu hafa. Þrátt fyrir lungun eru grápöddur mjög háðar raka og halda sig því gjarnan undir steinum eða í þéttum rökum gróðri og jarðvegi og lifa þar á rotnandi plöntuleifum.

Hér á landi finnast grápöddur einna helst við jarðhita og í og við gróðurhús. Einnig má rekast á þær í húsagörðum þar sem gróður er þéttvaxinn og gróskumikill. Ein tegund, sölvahrútur, finnst efst á sjávarströndum, á sjávarfitjum og klettum við sjó. Sölvahrútur er tengiliður þanglúsa í fjöru og grálodda á landi.

Jafnfætlur telja um 10.000 tegundir í heiminum, þar af 4.500 í sjó, 500 í fersku vatni og 5.000 á landi. Evrópskar tegundir skipast í 4 undirættbálka og 28 ættir. Grápöddur heyra til undirættbálksins Oniscidea og skiptist hann í 20 ættir. Af þeim eiga 6 ættir fulltrúa á Íslandi, alls 8 tegundir.

Höfundur

Erling Ólafsson 16. nóvember 2015

Biota