Myglusveppir

Myglusveppir eru hluti af umhverfi okkar og vaxa til dæmis í jarðvegi, á rotnandi jurtaleifum og ýmsu lífrænu eins og matarleifum. Þeir hafa það mikilvæga hlutverk að brjóta niður lífræn efni eins og fallin laufblöð og dauð tré og yfirleitt er einhver sveppur sem getur brotið niður flest það sem til er. Myglusveppir eru því mikilvægur þáttur í hringrás náttúrunnar.

Fínlegir sveppþræðir myglusveppa eru oftast inni í því sem þeir vaxa á og sjást því ekki nema þegar þeir eru margir og þétt saman. Þá er talað um myglu, ló eða vef á einhverju. Þegar kemur að því að mynda gró fær myglan oft á sig lit grómassans og áferð sem ræðst af gerð gróbera og eðli gróa. Þannig verða sumar myglur mélugar og þurrar meðan aðrar verða þéttsetnar slímkenndum dropum.

Myglusveppir framleiða margir hverjir mjög mikið af gróum og ýmsir þeirra framleiða efni sem geta haft áhrif á líkamsstarfsemi manna og annarra hryggdýra sem komast í snertingu við þau. Þetta geta líka verið lofttegundir sem gufa upp úr sveppunum, sumar illa lyktandi eins og fúkkalykt á meðan lykt annarra minnir á blómailm. Sum efni sem mygla framleiðir geta valdið ofnæmisviðbrögðum (ofnæmisvaka), önnur eru ertandi og nokkrir sveppir geta framleitt sveppaeiturefni (mycotoxins), efni sem geta í mjög litlu magni valdið eitrunum eða verið krabbameinsvaldandi.

gge_mygla_20i_20horni
Mynd: Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir

Myglusveppir í horni bak við bókaskáp þar sem raki þéttist í herbergisloftinu ofan við og lak niður vegginn.

Mygla innanhúss

Reikna má með því að í útilofti sé töluvert af sveppagróum nema þegar jörð er hulin snjó. Gró í útilofti og í eðlilegu innilofti eru blanda gróa margra og mismunandi tegunda sveppa en aðeins hluti þeirra getur þó vaxið upp innanhúss. Mörg eru þau háð tilteknum búsvæðum, til dæmis gró sníkjusveppa sem geta bara vaxið á lifandi laufi á hýsilplöntum sínum. Hins vegar eru aðrar tegundir, til dæmis af ættkvíslinni Cladosporium, sem vaxa utandyra á dauðum plöntuleifum en geta lifað góðu lífi á ýmsum stöðum innandyra sé raki til staðar. Sömu sögu er að segja af mörgum tegundum jarðvegssveppa en gró þeirra geta borist inn í hús neðan á skótaui og með moldroki.

Til að myglusveppir verði ekki til vandræða innanhúss þarf að gæta þess að hús séu þurr og vel loftræst því gróin þurfa raka til að geta spírað.

Ólíkir myglusveppir eftir búsvæðum

Þegar mygla sprettur upp innanhúss þá eru það oftast fleiri en ein tegund sveppa sem vex upp á hverjum stað þannig að úr verður mósaík af tveimur, þremur eða jafnvel fleiri tegundum. Oftast eru þó ein til tvær tegundir ríkjandi. Vankynssveppir eru oftast mest áberandi en innan um þá eru asksveppir sem mynda askhirslur sínar og í þeim kynjuð askgró. Búsvæðið, það er byggingarefnið sem sveppurinn vex á hverju sinni, ræður töluverðu um tegundasamsetningu sveppanna sem á því vex.

Á Náttúrufræðistofnun Íslands á Akureyri er tekið á móti myglusveppasýnum til greiningar fyrir almenning, sjá á síðunni Sveppagreiningar.

Umhverfisstofnun hefur gefið út bæklinginn Inniloft, raki og mygla í híbýlum: Leiðbeiningar fyrir almenning (pdf) þar sem fjallað er um hvernig best sé að viðhalda og bæta heilnæmi innilofts og hvernig bregðast skuli við verði inniloftið óheilnæmt.

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |