Plöntur

Plönturíkið inniheldur æðplöntur, mosa, grænþörunga og rauðþörunga en nýlegar rannsóknir byggðar á sameindafræðilegum gögnum benda til að rauðþörungar eigi sameiginlegan forföður með s.k. grænum plöntum (æðplöntur, mosar og grænþörungar). Hugtakið planta hefur hins vegar stundum innihaldið fleiri hópa eins og brúnþörunga (þang og þari), sem tilheyra ríki sem stundum hefur verið nefnt litverur (Chromista) en til þess ríkis teljast einnig eggsveppir, kísilþörungar, gullþörungar og gulgrænþörungar. Endur fyrir löngu töldust jafnvel sveppir til plantna en þeir hafa fyrir löngu fengið eigið ríki, svepparíkið, til umráða.

Hugtakið flóra er notað yfir plöntutegundir sem finnast á ákveðnu svæði eða tímabili jarðsögunnar.  

Þekking á íslenskum plöntum er ágæt. Skráðar tegundir eru ríflega 1.500 talsins og er útbreiðsla þeirra allvel þekkt. Tegundasamsetning er talsvert ólík á milli landshluta enda er loftslag mismunandi. Sumstaðar er landrænt loftslag ríkjandi en annars staðar er algengara að blási af hafi. Hitastig skiptir einnig máli, snjólega og hæð yfir sjávarmáli. Miðað við stærð landsins er munurinn á flóru einstakra landshluta þó miklu minni en búast hefði mátt við. 

Samanborið við önnur lönd sýnir flóra Íslands mestan skyldleika við flóru Skandinavíu og Bretlandseyjar, einkum Skotland. Eitt helsta einkenni gróðursfars á Íslandi er hversu fáar villtar tegundir æðplantna eru hér samanborið við nágrannalöndin, en þær eru taldar vera um 490. Ástæðurnar fyrir þessari tegundafæð íslensku flórunnar felast í hve stutt er síðan meginhluti landsins var hulinn jöklum, einangrun landsins og takmörkuðum dreifingarmöguleikum til landsins. Sumir telja að plöntur sem hér vaxa hafi allar borist hingað eftir ísöld en aðrir álíta að allt að fimmtungur flórunnar hafi lifað af ísöldina.

Nýjar tegundir berast reglulega til landsins með vindum, fuglum eða mönnum. Í áranna rás hafa mennirnir flutt inn nýjar tegundir, hvoru tveggja með ráðnum hug og óviljandi. Ýmsar plöntur hafa átt upphaf sitt í görðum eða garðyrkjustöðvum og dreifst þaðan út í villta náttúru og verða stundum að ágengum tegundum.

SKOÐA FLOKKUNARKERFI OG LEITA AÐ PLÖNTUM

Á vefnum Flóra Íslands, sem er í umsjón Náttúrufræðistofnunar Íslands, er fjallað um í kringum eitt þúsund tegundir íslenskra plantna.

Eyþór Einarsson 2005. Flóra og gróður Íslands. Í Hans H. Hansen. Íslandsatlas, bls. 18–23. Reykjavík: Edda.