Risahvannir

Meðal ágengra tegunda sem vaxa á Íslandi eru tvær náskyldar tegundir af ættkvíslinni Heracleum, stundum nefndar risahvannir. Risahvannir hafa verið notaðar sem skrautjurtir í görðum enda þykja þær blómfagrar. Þær eru hins vegar varasamar því þær eiga auðvelt með að ná fótfestu í lágvöxnum gróðri, dreifast hratt af sjálfsdáðum og geta orðið alvarlegt illgresi sem erfitt er að uppræta. Plönturnar eru eitraðar og ef safi þeirra berst á húð getur hún brunnið illa í sólarljósi. Risahvannir eru fremur sjaldgæfar utan garða enn sem komið er en tegundin hefur þó náð að mynda stórar breiður á höfuðborgarsvæðinu og í Eyjafirði.

Í Evrópu hafa fundist yfir 20 tegundir af ættkvíslinni Heracleum. Þrjár þeirra teljast til risahvanna, bjarnarkló (H. mantegazzianum), tröllakló (H. persicum) og Heracleum sosnowskyi, og vaxa tvær fyrrnefndu á Íslandi. Stærð þeirra, bæði mikil hæð sem plönturnar ná og risavaxin stærð laufblaðanna, útskýrir hvers vegna plönturnar eru nefndar risahvannir. Samkvæmt reglugerð nr. 583/2000 er óheimilt að flytja inn eða rækta risahvannir.

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |