Vöktun refastofnsins

Tímamörk

Langtímaverkefni frá 1979, á Náttúrufræðistofnun Íslands frá 2013

Samstarfsaðilar

Veiðimenn um land allt, Umhverfisstofnun, sveitarfélög og náttúrustofur.

Um verkefnið – Markmið og verkþættir

Meginmarkmið verkefnisins er að fylgjast með stofnbreytingum íslenska refastofnsins. Rannsóknir á stofnstærð íslenska refastofnsins byggist að miklu leyti á góðu samstarfi við veiðimenn um allt land sem senda stofnuninni hræ af felldum dýrum til krufninga. Þannig fæst gott þversnið af stofninum því hræ eru send inn af öllum svæðum og árstímum. Dýrin eru aldursgreind og með aldurs-afla aðferð (Virtual population analysis) og gögnum frá veiðiskýrslum er stofnstærð landsins metin. Reikniaðferðin sem beitt er við stofnmatið byggir á samlagningu á bakreiknaðri lágmarksstærð hvers árgangs veiðinnar sem er á lífi á hverju ári. Gert er ráð fyrir að birt sé nýtt stofnmat árlega en vegna eðlis aðferðarinnar er ekki hægt að áætla stofnstærð með öruggum hætti nema 3-5 ár aftur í tímann eða þegar stærsti hluti yngstu árganga er veiddur.

Breytingar á stofnstærð eru skoðaðar með hliðsjón af utanaðkomandi þáttum svo sem veðurfari og ástandi bráðarstofna. Einnig eru skoðaðir lífeðlisfræðilegir þættir sem mældir eru við krufningu, svo sem frjósemi og líkamsástand. Ástæður stofnbreytinga refsins geta verið af margvíslegum toga, meðal annars breytingar á veðurfari, fæðuskilyrðum, heilbrigði dýranna og aðbornum mengunarefnum. Lykilþættir í fjölgun og fækkun stofna er fjöldi dýra sem fæðast og lifa það að tímgast ásamt fjölda þeirra sem deyja eða tímgast ekki (frjósemi, geldhlutfall og dánartíðni). Þetta er allt metið út frá veiðigögnum og því úrtaki veiðinnar sem skilað er inn til rannsókna.

Innan verkefnisins eru nokkur sérverkefni, í samstarfi við innlenda og erlenda aðila:

 • Fæðuval íslenska melrakkans að vetrarlagi
 • Tímgunargeta íslenskra refalæðna
 • Verndarstaða íslenska refsins
 • Aðlögun stofnlíkans að íslenska refastofninum
 • Takmarkandi þættir í stofnvistfræði íslenska refsins
 • Þéttleikaháð stofnstærðarstjórnun íslenska melrakkans
 • Heilbrigði og mengunarefni í íslenska refnum
 • Sníkjudýr í meltingarfærum refsins
 • Stofnerfðafræði íslenskra refa
 • Félagskerfi tófunnar
 • Búsvæðaval og útbreiðsla íslenska refsins

Meðferð og innsending hræja

Nánari upplýsingar

Melrakki

Niðurstöður

Refastofninn stendur í stað (NÍ-frétt 26.1.2018)

Af refum á Hornströndum (Hrafnaþing 11.3.2015)

Íslenski refastofninn á niðurleið (NÍ-frétt 23.10.2014)

Merkilegir melrakkar (Hrafnaþing 30.4.2014)

Ester Rut Unnsteinsdóttir 2014. Mat á stofnstærð refa. Í María Harðardóttir, ritstj. Ársskýrsla 2014, bls. 36–37. Garðabær: Náttúrufræðistofnun Íslands.

Ester Rut Unnsteinsdóttir 2013. Merkilegir melrakkar. Í María Harðardóttir, ritstj. Ársskýrsla 2013, bls. 35–36. Garðabær: Náttúrufræðistofnun Íslands.

Snæfríður Pétursdóttir. 2015. Vetrarfæða tófu (Vulpes lagopus) á Íslandi: Samanburður á vetrarfæðu tófu á milli landshluta. B.S. ritgerð við Háskóla Íslands.

Tengiliður

Ester Rut Unnsteinsdóttir, spendýravistfræðingur