Net verndarsvæða

Neti verndarsvæða fyrir lífríki er ætlað að að tryggja ákjósanlega verndarstöðu vistkerfa, vistgerða og tegunda og viðhalda líffræðilegri fjölbreytni landsins og gera tegundum kleift að dreifast milli svæða með náttúrulegum hætti. Net verndarsvæða fyrir jarðminjar er ætlað að tryggja skipulega vernd landslags, vatnasvæða og jarðminja.

Verndarmarkmið fyrir lífríki eru:

  • að viðhalda fjölbreytni vistgerða innan náttúrulegra útbreiðslusvæða þeirra með þeirri tegundafjölbreytni og þeim vistfræðilegu ferlum sem einkenna hverja vistgerð og tryggja ákjósanlega verndarstöðu einstakra vistgerða,
  • að standa vörð um og efla vistkerfi landsins svo eðli þeirra, gerð og virkni sé tryggð til framtíðar,
  • að varðveita tegundir lífvera og erfðafræðilega fjölbreytni þeirra og tryggja ákjósanlega verndarstöðu þeirra þannig að tegundirnar nái að viðhalda sér í lífvænlegum stofnum til lengri tíma á náttúrulegum búsvæðum sínum.

Verndarmarkmið fyrir jarðminjar eru:

  • að varðveita skipulega heildarmynd af jarðfræðilegum ferlum og fyrirbærum sem gefa samfellt yfirlit um jarðsögu landsins,
  • að vernda jarðmyndanir sem eru sérstakar eða einstakar á lands- eða heimsvísu,
  • að vernda vatnsfarvegi, fossa og stöðuvötn svo sem kostur er,
  • að varðveita landslag sem er sérstætt eða fágætt eða sérlega verðmætt vegna fagurfræðilegs og/eða menningarlegs gildis,  e. að standa vörð um óbyggð víðerni landsins.

Í náttúruverndarlögum eru ýmis viðmið lögð til grundvallar að vali svæða en þau viðmið sem höfð eru til grundvallar við val á svæðum, og lögð er áhersla á við mat á verndargildi þeirra, eru auðgi, fjölbreytni, fágæti, stærð svæða og samfellu, upprunaleika og vísindalegt, menningarlegt, fagurfræðilegt og táknrænt gildi. Fer þá eftir því hvað er verið að meta hverju sinni hvort öll þess viðmið eiga við. Við val minja á framkvæmdaáætlun (B-hluta) þar sem áhersla er  á að byggja upp skipulegt net verndarsvæða er litið til margra þátta eftir því hvert viðfangið er hverju sinni og að teknu tilliti til þess að uppfylla fyrrgreind verndarmarkmið í 2. og 3. gr. laga um náttúruvernd. En þessir þættir eru:

  • hversu mikil hætta er á að minjunum verði raskað,
  • hvers konar minjum brýnast er að bæta í net verndarsvæða hverju sinni,
  • gildis minjanna miðað við aðrar í sama flokki náttúruminja,
  • mikilvægis svæðis til útivistar,
  • annarra hagsmuna sem varða svæðið.

Að því er varðar vistgerðir skal jafnframt taka tillit til þess:

  • hvort vistgerðin er mikilvæg fyrir friðaðar tegundir,
  • hvort vistgerðin gegnir veigamiklu hlutverki í viðhaldi sterkra stofna mikilvægra tegunda,
  • hvort vistgerðin er í útrýmingarhættu eða yfirvofandi hættu samkvæmt útgefnum válistum,
  • hvort verulegur hluti útbreiðslusvæðis vistgerðarinnar í Evrópu eða á heimsvísu er á Íslandi.

Að því er varðar tegundir skal jafnframt taka tillit til þess:

  • hvort tegundin er í útrýmingarhættu eða yfirvofandi hættu samkvæmt útgefnum válistum,
  • hvort tegundin er ábyrgðartegund,
  • hvort um er að ræða einlenda tegund eða sérstök afbrigði sem einungis er að finna hér á landi.