Mosamóavist

L10.1 Mosamóavist

Eunis-flokkun: Nýr flokkur, tillaga. E4.28 Icelandic Racomitrium grass heaths.

Lýsing

Þurrt, vel gróið, gamburmosaríkt mólendi, með strjálingsþekju af æðplöntum, einkum grasleitum tegundum, möðrum, krækilyngi og blóðbergi. Mosa­móavist er algengust í hlíðum og brekkurótum en finnst einnig á flötu landi meðfram lækjum, ám og á grónum áreyrum.

Plöntur

Vistgerðin er fremur rík af æðplöntum og mosum og mjög flétturík. Af æðplöntum er mest um krossmöðru (Galium boreale), þursaskegg (Kobresia myosuroides), blóðberg (Thymus praecox ssp. arcticus) og krækilyng (Empetrum nigrum). Algengastir mosa eru melagambri (Racomitrium ericoides) og hraungambri (R. lanuginosum) en næstir þeim koma engjaskraut (Rhytidiadelphus squarrosus), jarphaddur (Polytrichum juniperinum) og móasigð (Sanionia uncinata). Af fléttum eru engjaskóf (Peltigera canina), dílaskóf (P. leucophlebia), fjallagrös (Cetraria islandica) og grábreyskja (Stereocaulon alpinum) algengastar.

Jarðvegur

Áfoksjörð er ríkjandi, örlar einnig á eyrar-, klappar-, sand- og melajörð. Jarðvegur er þurr, miðlungi þykkur, fremur rýr af kolefni. Sýrustig er í meðallagi.

Fuglar

Fremur rýrt fuglalíf, algengustu eru varpfuglar spói (Numenius phaeopus), heiðlóa (Pluvialis apricaria), lóuþræll (Calidris alpina), þúfutittlingur (Anthus pratensis) og hrossagaukur (Gallinago gallinago).

Líkar vistgerðir

Melagambravist og hraungambravist.

Útbreiðsla

Finnst á láglendi og til heiða í flestum landshlutum, síst á Vesturlandi og Vestfjörðum, algengust á úrkomusamari svæðum landsins.

Verndargildi

Lágt.