Grasmelavist

Lýsing

Smágrýttir, lausir og sandríkir, fremur þurrir melar á flötu og hallandi landi. Sandfok víða allmikið. Gróður er mjög lágvaxinn, grasleitur og gróskulítill. Heildargróðurþekja mjög lítil en breytileg, að stærstum hluta æðplöntur.

Plöntur

Vistgerðin er fremur fátæk af æðplöntutegundum, miðlungi rík af fléttum en mjög fátæk af mosum. Af æðplöntum er mest um blóðberg (Thymus praecox sbsp. arcticus), túnvingul (Festuca rubra subsp. richardsonii) og lambagras (Silene acaulis). Algengastir mosa eru melagambri (Racomitrium ericoides), holtasóti (Andreaea rupestris) og hlaðmosi (Ceratodon purpureus) en algengastar fléttna eru  grásnuðra (Lecidea lapicida), vaxtarga (Lecanora polytropa) og dvergkarta (Tremolecia atrata).

Jarðvegur

Er miðlungs þykkur, flokkast sem melajörð og sandjörð, er með mjög lágt kolefnisinnihald en frekar hátt sýrustig.

Fuglar

Fábreytt fuglalíf og strjált varp, stöku snjótittlingar (Plectrophenax nivalis), steindeplar (Oenanthe oenanthe), sandlóur (Charadrius hiaticula), jafnvel sendlingar (Calidris maritima), heiðlóur (Pluvialis apricaria) og spóar (Numenius phaeopus).

Líkar vistgerðir

Eyðimelavist, víðimelavist og eyðihraunavist.

Útbreiðsla

Mjög útbreidd á gosbeltinu og finnst í minni mæli á vesturhluta landsins. Finnst einkum þar sem jarðvegur er sandríkur og lítið um grjót á yfirborði.

Verndargildi

Lágt.

Opna í kortasjá – Open in map viewer

Melar og móar – Fjallað er um vistgerðirnar lyngmóavist, sem tilheyrir mólendi, og grasmelavist, sem tilheyrir mela- og sandlendi (sýnt í Landanum á RÚV 4.11.2018).