Grashólavist

L7.4 Grashólavist

Eunis-flokkun: B1.41 Northern fixed grey dunes.

Lýsing

Stöðugar, allvel grónar, þurrar sandöldur, sums staðar með deigum lægðum, ofan við sjávarströnd þar sem sandur hefur safnast fyrir og land gróið upp. Vistgerðin hefur í flestum tilvikum þróast úr strandmelhólavist. Mosar og æðplöntur mynda meginuppistöðu í gróðurþekju og fléttur finnast í nokkrum mæli. Gróður er miðlungshár.

Plöntur

Tegundir æðplantna, mosa og fléttna fremur fáar. Ríkjandi æðplöntur eru túnvingull (Festuca rubra ssp. richardsonii), vallarsveifgas (Poa pratensis), blóðberg (Thymus praecox ssp. arcticus) og þursaskegg (Kobresia myosuroides). Af mosum eru móasigð (Sanionia uncinata), tildurmosi (Hylocomium splendens), engjaskraut (Rhytidiadelphus squarrosus) og fjöruskúfur (Syntrichia ruralis var. ruraliformis) algengastir, en af fléttum finnast helst torfubikar (Cladonia pocillum), himnuskóf (Peltigera membranacea) og engjaskófir (P. rufescens).

Jarðvegur

Jarðvegur er þykkur sandur og sandjörð er því ríkjandi jarðvegsgerð en lífræn jörð og áfoksjörð finnast einnig í nokkrum mæli. Kolefnisinnihald er fremur lágt en sýrustig hátt. Bæði kolefni og sýrustig er mjög breytilegt.

Fuglar

Talsvert fuglalíf, spói (Numenius phaeopus), lóuþræll (Calidris alpina), heiðlóa (Pluvialis apricaria), þúfutittlingur (Anthus pratensis), kría (Sterna paradisaea) og grágæs (Anser anser).

Líkar vistgerðir

Strandmelhólavist.

Útbreiðsla

Finnst á strandsvæðum þar sem sandhólar hafa gróið upp og myndað vel grónar öldur og hóla upp af strönd. Algengust á sunnanverðu Snæfellsnesi, með suðurströndinni frá Eyrarbakka austur í Meðalland.

Verndargildi

Hátt. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.