Útgáfa vistgerðalykils

Árið 2016 lauk Náttúrufræðistofnun Íslands lýsingu og kortlagningu á vistgerðum á landi, í ferskvatni og fjörum hér á landi. Þar var lagður grunnur að nýrri flokkun á náttúrufari landsins sem byggir að mestu á því hvernig tegundir plantna og dýra skipa sér saman í greinanleg samfélög eða einingar. Hérlendis eru vistgerðir og landgerðir á landi alls 64 talsins og er þeim skipað í 14 yfirflokka eða vistlendi (t.d. mólendi, mýrlendi, skóglendi).

Vistgerðalykillinn sem nú er kominn í birtingu leiðir notandann niður á vistlendi og síðan á þá vistgerð sem best fellur að því landi sem er til skoðunar. Við heiti hverrar vistgerðar er tengill á staðreyndasíðu á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands sem kalla má fram ef unnið er með lykilinn í tölvu eða snjallsíma. Hægt er að nálgast vistgerðalykil landvistgerða á íslensku og ensku. Lykill fyrir vistgerðir í fjörum er í vinnslu.

Vistgerðalyklar

Allar ábendingar og athugasemdir við vistgerðalykilinn eru vel þegnar og má senda þær með tölvupósti til Náttúrufræðistofnunar Íslands.