Fuglamerkingar 2017

Árið 2017 var 97. ár fuglamerkinga á Íslandi. Frá upphafi hafa alls verið merktir 718.797 fuglar af 157 tegundum. Þær tegundir sem mest var merkt af á árinu voru auðnutittlingur (8.784), skógarþröstur (2.397), lundi (1.631), kría (1.005), rauðbrystingur (677), tjaldur (617) og æður (520). Ein tegund var merkt í fyrsta sinn, pánefur (Loxia pytyopsittacus), sem merktur var af Fuglaathugunarstöð Suðausturlands í Einarslundi í október.

Alls var tilkynnt um 93 endurheimtur á fuglum með erlend merki á árinu; 78 frá Bretlandseyjum, sjö frá Hollandi, fjórar frá Noregi, tvær frá Spáni, ein frá Danmörku og ein frá Þýskalandi. Að auki eru þúsundir álestra á ýmsar tegundir litmerkta fugla sem merktir hafa verið hér á landi og erlendis.

Viðförulasti fugl ársins var litmerkt sanderla frá Ghana sem sást í maí á Melrakkasléttu, 6.910 km frá merkingastað. Lesið var á stálmerki á stormmáfi, sem merktur var sem ungi við Akureyrarflugvöll sumarið 2013, í Swampscott í Massachusetts í febrúar 2017, þá kominn 4.110 km að heiman.

Athygli vakti hettusöngvari sem merktur var á Siglufirði í nóvember 2016 og náðist lifandi við Drummond á Inverness í Skotlandi í júlí 2017. Þetta er í fyrsta sinn, svo vitað sé, sem flækingsspörfugl merktur á Íslandi skilar sér til baka til náttúrlegra heimkynna tegundarinnar. Dæmi eru til um að fuglar af stærri tegundum s.s. dvergsvanur hafi snúið til baka til fyrri heimkynna.

Elsta álft Evrópu, BXN, fannst dauð í maí og er talin hafa drepist síðla vetrar. Hún var merkt sem ungi í september 1986 og varð hún því að minnsta kosti 30,5 ára. Eldri álft er ekki að finna á lista EURING yfir evrópsk aldursmet. Skrofa sem var fullorðin merkt á hreiðri sumarið 1991 var endurveidd á hreiðri 26 árum síðar, þá að minnsta kosti 32 ára miðað við að skrofur eru taldar hefja varp 6–7 ára gamlar. Þetta er nýtt Íslandsmet en elsta þekkta skrofa Evrópu var bresk og varð að minnsta kosti 50,9 ára.

Ítarlegri upplýsingar má finna í skýrslunni Fuglamerkingar 2017 (pdf)

Rannsóknaverkefnið fuglamerkingar