Birkikemba – Lítill glaðningur fyrir garðeigendur


Birkikemba (Heringocrania unimaculella). Ljósm. Erling Ólafsson.

Birkikembu (Heringocrania unimaculella) varð fyrst vart í Hveragerði árið 2005. Þar hafði hún þá komið sér vel fyrir bæði í húsagörðum og trjáræktinni undir Hamrinum. Fiðrildunum fjölgaði hratt og tveim árum síðar (2007) varð þeirra vart fremst í Fossvogi í Reykjavík. Í kjölfarið dreifðist hún upp í kirkjugarðinn, inn Fossvogsdalinn og upp í Kópavogshálsinn. Nú í vor (2012) var ljóst orðið að birkikembunni hafði aldeilis vaxið ásmegin. Hún fannst víða í Reykjavík og suður í Hafnarfjörð. Auk þess var hún mætt til leiks í trjárækt Skógræktar ríkisins að Mógilsá í Kollafirði og í görðum á Selfossi.

Vegna smæðarinnar varð fólk almennt ekki vart við fiðrildin af alvöru fyrr en í vor þegar fjöldinn var orðinn slíkur að fjöldinn allur settist á húsveggi. Fiðrildin sjálf eru á ferð á vorin en þau skríða úr púpum í fyrrihluta apríl og hverfa með öllu fyrir miðjan maí. Á þeim tíma verpa þau á brum birkis og eggin klekjast þegar tré taka að laufgast. Lirfurnar smjúga þá inn í laufblöðin, koma sér þar fyrir og éta innvefi þeirra. Eftir því sem lirfurnar dafna taka blöðin að sölna og á endanum standa einungis eftir ysta lag efra- og neðraborðs blaðs sem blæs út eins og brúnn belgur. Fullvaxnar lirfur skríða út úr belgnum og hverfa niður í svörð þar sem þær púpa sig og bíða næsta vors á því þroskastigi.

Ummerkin á trjánum, brúnir uppblásnir laufbelgir, eru einkennandi fyrir birkikembu. Hér er sennilega mætt til leiks tegund sem á eftir að fjölga hratt á komandi árum og dreifast út víðar um garða og trjáræktir, jafnvel í náttúrulega birkiskóga.

Það má fræðast frekar um birkikembu á pödduvef Náttúrufræðistofnunar.


Grein birkitrés alsett ummerkjum eftir lirfur birkikembu. Mógilsá í Kollafirði 11. júní 2012. Ljósm. Erling Ólafsson.


Lauf birkitrés með einkennandi ummerkjum eftir lirfur birkikembu. Mógilsá í Kollafirði 11. júní 2012. Ljósm. Erling Ólafsson.