Arnarvarp gekk vonum framar

Þrálátar norðanáttir og kuldatíð vorið 2011 höfðu áhrif á varp fugla víða um land. Því var viðbúið að arnarvarp myndi ganga mun verr en undanfarin ár. Varpárangur arna reyndist þó í meðallagi við Faxaflóa en afar slakur við norðanverðan Breiðafjörð og á Vestfjörðum en á því svæði komu einungis 6 pör af 26 upp ungum. Ernir verpa snemma og fara að huga að varpi þegar í seinni hluta mars með því að dytta að hreiðrum og stunda fluglistir og aðra ástarleiki. Þeir fyrstu verpa um 10. apríl og eru flestir orpnir hálfum mánuði síðar. Varptíminn er óvenju langur eða 4-5 mánuðir enda verða ungarnir ekki fleygir fyrr en um miðjan ágúst. Því eru ernir berskjaldaðir fyrir slæmu tíðarfari allt fram til loka júní en þá eru ungarnir orðnir nógu þroskaðir til að halda sjálfir á sér hita. Ógætileg umferð við arnarhreiður á viðkvæmasta tímanum getur leitt til þess að hreiður misfarist en sem betur fer virða langflestir hreiðurhelgi arnarins. Fátítt er núorðið að menn eyðileggi vísvitandi arnarvarp, þótt það gerist því miður nær árlega, þrátt fyrir að örninn hafi verið alfriðaður í nær heila öld eða frá 1914.

Náttúrufræðistofnun Íslands vaktar arnarstofninn í samvinnu við Fuglaverndarfélag Íslands og Náttúrustofurnar í Stykkishólmi og Bolungarvík.