Hreindýr

Hreindýr (Rangifer tarandus) er sú tegund hjartardýra (Cervidae) sem á sér heimkynni nyrst á hnettinum, umhverfis norðurheimskautið. Hreindýrum er skipt í tvo hópa, skógarhreina (Compressicornis) og túndruhreina (Cylindicornis). Skógarhreinar eru á syðstu mörkum útbreiðslunnar og eiga búsvæði í barrskógum og öðru þéttu skóglendi, til dæmis í norðlægum skógum Norður-Ameríku og í skógum í Norður-Svíþjóð, Norður-Finnlandi og Rússlandi. Túndruhreinar eiga heimkynni sín á heimskautaeyjum, í opnu skóglendi og á freðmýrum norðurhjarans, í Skandinavíu, Rússlandi, Íslandi (innflutt), Skotlandi (innflutt), Grænlandi, Kanada, Alaska og Svalbarða.

Innan hvors hóps er að finna nokkrar undirtegundir, flestar meðal túndruhreina, til dæmis hin lágfættu svalbarðahreindýr (R. t. platyrbynchus), grænlandshreindýr (R. t. pearyi) og íslensku hreindýrin (R. t. tarandus), en þau síðastnefndu eru af skandinavísku og rússnesku kyni. Elstu minjar um hreindýr eru frá því fyrir um 440 þúsund árum en talið er að maðurinn hafi nýtt sér afurðir þeirra í meira en 25 þúsund ár. Hreindýr voru útbreidd um alla Evrópu fyrir ísöld en þau fluttu sig norðar eftir því sem hlýnaði og ísaldarjökullinn hopaði.

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |