Bjöllulilja (Pyrola grandiflora)

Útbreiðsla

Fremur sjaldgæf tegund sem vex einkum á norðaustanverðu landinu, frá Eyjafirði og austur um (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Vistgerðir

Hallandi mýrlendi, hálfdeigir lyngmóar og skóglendi innan um lyng og hrís (Hörður Kristinsson 1998).

Lýsing

Lágvaxin jurt (10–20 sm) með fagurgræn nær kringlótt blöð og nokkur drúpandi, hvít blóm í klasa. Blómgast í júlí–ágúst.

Blað

Stöngullinn með nokkrum bleikleitum eða móleitum hreisturblöðum (7–10 mm). Laufblöðin stofnstæð, stilkurinn álíka langur eða lengri en blaðkan sem er nær kringlótt eða sporbaugótt, 2–3,5 sm á kant, fremur þykk og skinnkennd, brún hreisturblöð á milli laufblaðanna (Hörður Kristinsson 1998).

Blóm

Blómin eru í fremur gisnum klasa. Krónan klofin nær niður í gegn, um 14–18 mm í þvermál. Krónublaðfliparnir öfugegglaga, hvítir eða með ofurlítið bleikum æðum. Fræflar tíu með fagurgulum frjóhirslum. Ein purpurarauð fræva með löngum (7 mm), bognum stíl. Bikarblöðin um 3 mm á lengd, móleit eða bleik (Hörður Kristinsson 1998).

Greining

Hún er skyld klukkublómi en hefur stærri blóm og gisnari blómskipan og laufblöðin eru skinnkenndari og meira gljáandi á efra borði. Bjöllulilja þekkist einnig vel á hinum langa, bogna stíl.

Útbreiðslukort

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007

Hallandi mýrlendi, hálfdeigir lyngmóar og skóglendi innan um lyng og hrís (Hörður Kristinsson 1998).

Biota

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Tvíkímblöðungar (Magnoliopsida)
Ætt (Family)
Lyngætt (Ericaceae)
Tegund (Species)
Bjöllulilja (Pyrola grandiflora)