Geirfugl (Pinguinus impennis)

Útbreiðsla

Geirfuglar urpu við norðanvert Atlantshaf og eru þrír varpstaðir þekktir hér með vissu: Geirfuglasker undan Reykjanesi og síðar Eldey, eftir að skerin hurfu í sjó við jarðhræringar árið 1830, og loks Geirfuglasker í Vestmannaeyjum (Arnþór Garðarsson 1984, Hjálmar R. Bárðarson 1986, Lúðvík Kristjánsson 1986, Örnólfur Thorlacius 1998).

Stofnfjöldi

Á sögulegum tíma var íslenskur varpstofn geirfugls talinn nema nokkrum hundruðum til fáeinna þúsunda para (Arnþór Garðarsson 1984). Geirfugl er útdauður hér sem og annars staðar í heiminum. Þegar síðustu geirfuglarnir voru drepnir í Eldey 1844 hafði stofninn verið á niðurleið öldum saman vegna ofveiði. Geirfuglsbein hafa fundist í gömlum öskuhaugum en einungis á svipuðum slóðum og vitað er að fuglarnir urpu undir það síðasta, þ.e. á suðvesturhorni landsins og í Vestmannaeyjum (Ævar Petersen 1995).

Lífshættir

Geirfuglinn var stærstur svartfugla, um 70 cm langur og um það bil 5 kg á þyngd, mun stærri en núlifandi ættingjar hans, álka, langvía og stuttnefja. Hann varp einu eggi og talið er að unginn hafi, 9 daga gamall, farið með foreldrum sínum á sjó um miðjan júlímánuð (Bengtson 1984, Ævar Petersen 1995).

Geirfugl í þrívídd

Geirfuglsegg í þrívídd

Válistaflokkun

EX (útdauð tegund)

ÍslandEvrópuválistiHeimsválisti
EX EX EX

Forsendur flokkunar

Geirfuglinn varð útdauður árið 1844 en þá voru tveir síðustu fuglarnir sem vitað er um í heiminum drepnir í Eldey undan Reykjanesi. 

Global position

Á sögulegum tíma var geirfugl algengastur við Nýfundnaland þar sem fuglunum var slátrað gegndarlaust. Geirfuglar urpu einnig á eyjum við strendur Norðvestur-Evrópu fram yfir aldamótin 1800 (Bourne 1993).

Ógnir

Geirfuglinn var nýttur hér öldum saman. Hann var ófleygur og því auðveld bráð á varpstöðvunum. Á Nýfundnalandi smöluðu sjómenn fuglunum saman í réttir og rotuðu þá. Eftir miklu var að slægjast því hver fugl gaf um 1,5 kg af kjöti auk fitu og lýsis.

Myndir

Heimildir

Arnþór Garðarsson 1984. Fuglabjörg Suðurkjálkans. – Árbók Ferðafélags Íslands 1984: 127-160.

Bengtson, S.-A. 1984. Breeding ecology and extinction of the Great Auk (Pinguinus impennis): anecdotal evidence and conjectures. – Auk 101: 1-12.

Bourne, W.R.P. 1993. The story of the Great Auk Pinguinis impennis. – Archives of Natural History 20: 257-278.

Hjálmar R. Bárðarson 1986. Fuglar Íslands. – Hjálmar R. Bárðarson, Reykjavík. 336 bls.

Lúðvík Kristjánsson 1986. Íslenskir sjávarhættir. 5. bindi. – Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík. 498 bls.

Ævar Petersen 1995. Brot úr sögu geirfuglsins. – Náttúrufræðingurinn 65: 53-66.

Örnólfur Thorlacius 1998. Geirfuglinn, lífshættir og afdrif. – Bls. 413-431 í Þjóðlíf og þjóðtrú. Ritgerðir helgaðar Jóni Hnefli Aðalsteinssyni. Þjóðsaga, Reykjavík.

Höfundur

Kristinn Haukur Skarphéðinsson júní 2018, október 2018

Biota

Tegund (Species)
Geirfugl (Pinguinus impennis)

Samantekt á Ensku

The Great Auk became extinct (EX) in 1844 when the last known pair in the world was captured on the island of Eldey off the southwest coast of Iceland.