Hættuflokkar Alþjóðanáttúruverndarsambandsins

Árið 2017 gaf Alþjóðanáttúruverndarsambandið (IUCN) út endurskoðaða staðla og leiðbeiningar fyrir gerð válista (13. uppfærsla) og eru þau viðmið nú notuð við gerð válista yfir íslenskar lífverur. IUCN-kerfið nýtur almennrar viðurkenningar og er notað mjög víða. Matskerfinu má beita á undirtegundir, tegundir, ættkvíslir og ættir lífvera á jörðinni í heild en einnig til að flokka lífverur tiltekinna svæða eða einstakra landa eins og hér er gert. Tegundum er síðan skipað í sjö skilgreinda áhættuflokka eftir ástandi þeirra. Í íslenska válistanum er fjallað um tegund og tegundir (í stað taxon og taxa) sem tekur til allra áðurnefndra flokkunareininga.

Útdauð (Extinct - EX)

Tegund telst vera útdauð þegar enginn vafi er talin á því að síðasti einstaklingurinn af tegundinni sé dauður. Tegund telst útdauð þegar ekki finnst einn einasti einstaklingur hennar þrátt fyrir ítarlega leit á þekktum eða líklegum búsvæðum á öllu útbreiðslusvæði hennar. Leita verður á þeim tíma sem samræmist lífsferli og lífmynd tegundarinnar.

Útdauð í náttúrunni (Extinct in the wild - EW)

Tegund telst vera útdauð í náttúrunni þegar hún lifir hvergi villt svo vitað sé heldur aðeins í ræktun eða í haldi, eða sem ílendur stofn/stofnar fjarri fyrri útbreiðslusvæðum. Tegund telst útdauð í náttúrunni þegar ekki finnst einn einasti einstaklingur hennar þrátt fyrir ítarlega leit á þekktum eða líklegum búsvæðum á öllu útbreiðslusvæði hennar. Leita verður á þeim tíma sem samræmist lífsferli og lífmynd tegundarinnar.

Útdauð á svæði (Regionally Extinct – RE)

Tegund telst vera útdauð á svæði þegar enginn vafi leikur á því að síðasti einstaklingurinn sem hugsanlega er fær um að fjölga sér á viðkomandi svæði, hefur dáið eða horfið af landinu (svæðinu).

Í bráðri hættu (Critically endangered – CR)

Tegund telst vera í bráðri hættu þegar eindregnar líkur eru á að hún verði útdauð í náttúrunni í náinni framtíð samkvæmt tilteknum forsendum.

Í hættu (Endangered – EN)

Tegund telst vera í hættu, en þó ekki í bráðri hættu, þegar mjög miklar líkur eru á að hún verði útdauð í náttúrunni í fyrirsjáanlegri framtíð, samkvæmt tilteknum forsendum.

Í nokkurri hættu (Vulnerable – VU)

Tegund telst vera í nokkurri hættu, en þó hvorki í bráðri hættu né í hættu samanber hér að framan, ef miklar líkur eru á að hún verði útdauð í náttúrunni í framtíðinni samkvæmt tilteknum forsendum.

Í yfirvofandi hættu (Near threatened – NT)

Tegundir sem eru nálægt því að flokkast í nokkurri hættu samkvæmt tilteknum forsendum.

Ekki í hættu (Least concern – LC)

Tegundir sem falla í hvorugan undirflokkinn hér að framan. Útbreiddar og algengar tegundir teljast til þessa flokks. Ekki er talin hætta á að tegundin verði útdauð, að gefnum forsendum.

Vantar gögn (Data deficient – DD)

Tegund fellur í þennan flokk þegar upplýsingar um útbreiðslu hennar og stofnstærð eru ekki nægilegar til þess að hægt sé að meta hvort hún sé í útrýmingarhættu.

Á ekki við (Not Applicable – NA)

Tegund getur fallið undir skilgreiningar þessa flokks vegna eftirfarandi: (a) ekki er um villta tegund að ræða, tegundin er innflutt og telst ekki til íslenskrar flóru og fánu. (b) ef um flökkutegund er að ræða, hvort sem um reglubundnar heimsóknir er að ræða eða fáein tilfelli. (c) tegund er á jaðri útbreiðslusvæðis á því svæði sem lagt er mat á og/eða yfirleitt er aðeins um örfáa einstaklinga að ræða.

Ekki metin (Not evaluated – NE)

Tegund telst ekki hafa verið metin ef ekki hefur ennþá verið beitt við matið þeim skilgreiningum og aðferðum sem hér hefur verið lýst.

Yfirlilt um helstu breytingar á hættuflokkum og viðmiðum IUCN frá 2000 (pdf).