Plöntusteingervingar

Plöntusteingervingar eru margvíslegir, allt frá örsmáum þörungaleifum upp í risavaxna trjáboli. Plönturnar finnast sjaldnast heilar og yfirleitt er um að ræða einstaka plöntuhluta eins og laufblað, aldin, fræ, brumhlíf, stöngul, trjábol, grein eða rót. Frjókorn í jarðlögum teljast líka til plöntusteingervinga en þau eru svo smásæ að ekki er unnt að greina þau með berum augum.

Plöntuleifarnar varðveitast á ólíkan hátt. Í sumum tilvikum sést einungis svolítið far eftir plöntuhluta, eins og oft er tilfellið með laufblöð. Í öðrum tilfellum varðveitast plöntuvefirnir nánast sem í lifandi plöntu væru og eru trjábolir í surtarbrandslögum gott dæmi um slíka varðveislu. Þá er einnig algengt að plöntuhluti hafi kolast og sést hann þá sem örþunn, dökk skán í setlögum. Stundum setjast steinefni til í frumum plöntuvefjarins, til dæmis kísill, og er þá sagt að lífveran (til dæmis tréð) hafi steinrunnið.

Algengast er að finna plöntusteingervinga í millilögum blágrýtis- og grágrýtismyndunarinnar á Íslandi. Millilögin geta ýmist verið forn jarðvegur þar sem plönturnar uxu eða vatnaset sem mynduðust á botni fornra stöðuvatna eða tjarna; plöntuhlutar sem bárust út í vötnin settust til á botni og tóku þátt í myndun setlaga ásamt bergbrotum og þörungaleifum. Plöntuleifar finnast einnig í gjóskulögum og öðrum setlögum mynduðum í tengslum við gos. Neðst í hraunlögum blágrýtismyndunarinnar má stundum sjá för eða holur eftir trjáboli sem hraun hafa runnið yfir. Dæmi eru um að hraun hafi seinna runnið inn í þessar holur og myndað þannig basaltafsteypur af trjábolunum.

Elstu plöntusteingervingar sem fundist hafa á Íslandi eru um 15 milljón ára eða frá míósentíma jarðsögunnar. Það eru blaðför, kolaðar blaðleifar og aldin, frjókorn, samanpressaðir trjábolir og surtarbrandur. Helstu fundarstaðir eru yst á Vestfjarðakjálkanum, það er í Þórishlíðarfjalli í Selárdal, Svalvogum við Dýrafjörð, Botni í Súgandafirði og Breiðhillu utan við Bolungarvík. Í Mókollsdal í Strandasýslu hafa varðveist skordýra- og plöntuleifar og eru steingervingarnir þar um 8–9 milljón ára gamlir.