Dýrasteingervingar

Steingerðar leifar landdýra eru afar sjaldgæfar á Íslandi. Örfá bein af landspendýri fundust í setlögum í Vopnafirði frá plíósentíma og eru talin vera úr hjartardýri. Frá míósentíma hafa fundist vatnaflær í setlögum í Mókollsdal og Langavatnsdal og afsteypa af ferkvatnsskel í Fnjóskadal. Í setlögum frá sama tíma hafa fundist nokkur vel varðveitt eintök af skordýrum og ummerki eftir þau á steingerðum plöntuleifum. Má þar nefna bjöllutegund, blaðlýs og hármý.  

Steingerðar leifar skeldýra og sjávarspendýra eru algengari og á Tjörnesi er að finna ein merkustu setlög með steingervingum á Íslandi. Þeim hefur verið skipt upp í þrjár setlagasyrpur sem eru aðgreindar af hraunlögum. Höggun á svæðinu vegna landreks hefur orsakað landsig og landris og því hafa setlögin ýmist myndast á grunnsævi eða ofan sjávarmáls. Í setlagasyrpunum er að finna sjávarset, vatnaset, árset og jökulberg og eru mörg þeirra rík af steingervingum sem veita mikilvægar upplýsingar um fornt loftslag og sjávarumhverfi í upphafi ísaldar. Elsta syrpan ber heitið Tjörneslögin og er hún rúmlega 500 m þykk. Þar finnast flestar tegundir steingerðra sjávardýra í íslenskum setlögum. Mest ber á lindýrum, krabbadýrum og götungum en einnig hafa fundist leifar fiska og sjávarspendýra, svo sem steingerð bein sela, rostunga og hvala.

Tjörneslögunum er skipt upp í þrjú lífbelti (e. biozones) út frá steingervingum sem þar finnast og eru þau nefnd eftir einkennandi tegund.

Gáruskeljalögin eru elst og á þeim liggja tígulskeljalögin. Í þeim skiptast á sjávarsetlög mynduð í grunnsævi og þunn surtabrandslög eða brúnkolalög mynduð í votlendi. Margar skeldýrategundanna í gáru- og tígulskeljalögunum lifa nú eingöngu í hlýrri sjó en er nú hér við land. Skeldýrafánan í tígulskeljalögunum bendir þó til þess að sjór hafi farið kólnandi.

Krókskeljalögin eru yngst og liggja ofan á tígulskeljalögunum. Mörkin á milli þeirra miðast við segulskiptin Gilbert-Gauss, sem voru fyrir um 3,6 milljón árum. Neðst í krókskeljalögunum hverfa flestar kulvísu skeljar tígulskeljalaganna en í stað þeirra koma nýjar tegundir skeldýra sem lifa við svipaðan sjávarhita og er nú við Ísland. Þarna hafa fundist um 80 tegundir skelja en af þeim eiga rúmlega 20 tegundir uppruna sinn að rekja til Kyrrahafs. 

Beringssund tók að opnast fyrir um 5 milljón árum og fyrir um 3,6 milljón árum urðu breytingar á hafsstraumum í Norður-Kyrrahafi í tengslum við lokun Panamasunds. Á sama tíma urðu miklir sædýraflutningar um Beringssund yfir í Atlantshaf. Um 125 nýjar tegundir sjávarlindýra komu þessa leið, þar á meðal beitukóngur, hafkóngur, krókskel og hallloka. Breytingar á tegundum steingervinga í sjárvarsetlögum frá þessum tíma koma fram víða í Evrópu. Tilkoma krókskeljar og hafkóngs í jarðlögum við Atlantshaf er talin marka upphaf ísaldar. 

Í lok síðustu ísaldar og byrjun nútíma hörfuðu jöklar hratt inn til landsins, sjór gekk á land og sjávarsetlög með fornskeljum (e. subfossils) mynduðust. Þessar setmyndanir og fornu sjávarlífverurnar sem hafa varðveist í þeim, hafa aukið skilning jarðvísindamanna á atburðarás loftslags- og sjávarstöðubreytinga í lok síðustu ísaldar á Íslandi.