Eyraslæða (Gesneria centuriella)

Útbreiðsla

N-Evrópa og fjalllendi M-Evrópu, austur um Rússland og N-Asíu; Kanada, norðurríki Bandaríkjanna, Grænland.

Ísland: Mjög sjaldgæf tegund, algengari á norðanverðu landinu en á Suðurlandi. Á Suðurlandi fundin undir Eyjafjöllum, á Skeiðarársandi og í Skaftafelli í Öræfum. Á Norðurlandi í Langadal í Húnavatnssýslu, Eyjafirði, Fnjóskadal og Öxarfirði, á miðhálendinu við Arnarfell hið mikla, í Hvannalindum og nágrenni Kárahnjúka.

Lífshættir

Eyraslæða finnst í eyrarrósarbreiðum á áreyrum en lirfurnar nærast á eyrarrós (Chamerion latifolium). Sigurskúfur (C. angustifolium) er einnig á matseðlinum erlendis. Þekktur flugtími hérlendis er frá snemma í júlí og fram undir miðjan ágúst. Ekkert er vitað um þroskaferil ungviðisins. Þó má ljóst vera út frá flugtímanum að lirfurnar vaxa upp seinni hluta sumars. Líkast til leggjast þær í vetrardvala hálfvaxnar til að halda vexti áfram næsta vor.

Almennt

Eyraslæða, áður nefnd eyramölur, fannst fyrst hérlendis í ágúst 1972 á flögri sunnan undir Arnarfelli hinu mikla, í miðju landsins, en þar vex eyrarrós á áreyrum. Nokkrum árum síðar fór hún að finnast víðar á landinu en í litlum mæli þó. Flestir fundarstaðir eru um norðanvert landið sem kemur ekki á óvart því tegundin er tiltölulega norðlæg, einna algengust í norðanverðri Skandinavíu og fjalllendi M-Evrópu. Eyraslæða lætur lítið á sér kræla og heldur sig mest í gróðrinum. Það þarf yfirleitt að leita hennar sérstaklega með því að ganga um eyrarrósabreiður og hrekja hana upp. Hún flýgur yfirleitt skammt og stingur sér aftur niður í gróðurinn til að leynast.

Tegundin er auðþekkt frá öðrum smáfiðrildum. Vængirnir eru mun breiðari en á skyldum tegundum og nokkuð breytilegir á lit. Að grunni til eru framvængirnir ljósleitir, misjafnlega þó, gráir, grábrúnir, með dekkra breiðu belti yfir miðjuna, gráleitu í miðju og dekkra brúnu til jaðranna. Lirfur eru óþekktar.

Útbreiðslukort

Heimildir

Downes, J.A. 1966. The Lepidoptera of Greenland; some geographic considerations. Can. Ent. 98: 1135–1144.

Erling Ólafsson 1981. Eyramölur (Gesneria centuriella) fundinn á Íslandi. Náttúrufræðingurinn 32: 178–181.

Linnaluoto, E.T. & S. Koponen 1980. Lepidoptera of Utsjoki, northernmost Finland. Kevo Notes 5: 1–68.

Wolff, N. 1964. The Lepidoptera og Greenland. Medd. om Grønl. 159 (11): 1–74.

Bugguide. Species Gesneria centuriella - Hodges#4703. http://bugguide.net/node/view/48081 [skoðað 26.1.2011]

Entomology collection. Species Page - Gesneria centuriella. http://www.entomology.ualberta.ca/
searching_species_details.php?c=8&rnd=56081121&s=6372
[skoðað 26.1.2011]

Höfundur

Erling Ólafsson 26. janúar 2011

Biota

Ríki (Kingdom)
Dýr (Animalia)
Fylking (Phylum)
Liðdýr (Arthropoda)
Undirfylking (Subphylum)
Sexfætlur (Hexapoda)
Flokkur (Class)
Skordýr (Insecta)
Ættbálkur (Order)
Fiðrildi (Lepidoptera)
Ætt (Family)
Slæðufiðrildaætt (Crambidae)
Tegund (Species)
Eyraslæða (Gesneria centuriella)