Randbarði í Reykjavík

Randbarði í Reykjavík

Randbarði (Fomitopsis pinicola (Sw.: Fr.) P. Karst.) finnst á viði í Reykjavík

Í ársbyrjun 2007 hafði samband við Guðríði Gyðu Eyjólfsdóttur sveppafræðing, maður úr Grafarvogshverfi í Reykjavík vegna þess að eitthvað sem hann taldi að gæti verið sveppur óx út úr furuplönkum sem hann notaði til að afmarka trjábeð í garði sínum. Plankarnir voru málaðir brúnir og höfðu verið þarna frá því garðurinn var gerður fyrir 11 árum. Hann lýsti þessu þannig að út úr plönkunum yxu ílangir hnúðar og þetta líktist einna helst brúnu frauðefni sem oft er notað til að fylla í rifur. Hann tók eftir þessu fyrir nokkrum árum og hafði áhuga á því að vita hvað þetta væri. Miðað við lýsinguna þá gætu þetta verið aldin einhvers fúasvepps. Í lok janúar skar hann tvö aldin af plönkunum og sendi til rannsóknar.

Þessi aldin voru bæði ung og af þeim var mjög áberandi lykt en ekki fundust gró í þeim.

Það var ljóst að þetta er einhver borusveppur. Borusveppir mynda margir hverjir fjölær aldin sem eru hörð og á þau myndast nýtt borulag á hverju ári. Íslenska fungan telur tiltölulega fáar tegundir borusveppa miðað við fungu landa í barrskógabeltinu og þótti líklegt að hér væri um athyglisverða tegund að ræða og ástæða til að skoða vaxtarstaðinn og leita að gömlum aldinum í von um að finna gró í þeim.

Þegar eiganda sveppsins var sagt frá þessu kom í ljós að það voru fleiri aldin á plönkunum og þann 24. maí kom loks að því að skoða sveppinn á vaxtarstað sínum.

Þar sem ungu aldinin höfðu vaxið sást móta fyrir sveppvef milli plankanna. Tvö gömul aldin uxu út úr plönkunum, annað út yfir hellulagða stétt en hitt maraði í hálfu kafi í veturgömlu laufi yfir jarðvegi í trjábeði. Aldinin voru ljósmynduð og það sem óx í trjábeðinu tekið til frekari rannsóknar.

Hversu gömul aldinin eru er ekki gott að segja en varla eru þau yngri en fjögurra ára. Aldinið er með skorpu úr harðri kvoðu sem er fyrst brún, verður síðan dökkrauðleit og að lokum grá og allt að því svört. Yfirborðið er beltaskipt, barðið er ljóst í sama lit og borulagið undir aldininu en síðan tekur við rauðleitt belti en þá taka við þrjú grá belti og er það innsta miðjan á aldininu sem var skoðað. Frá miðju og út að brún eru 10 cm en eldri hluti aldinsins sem ber það eins og stilkur og festur var í plankann er 11 cm en aldinið er nokkuð L-laga og óreglulegt í laginu, breiðast 14 cm í þvermál.

Sveppavefur í aldininu er fölgulur til drapplitaður en borulagið drapplitað til ljósbrúnt í þverskurði. Borulag séð að neðan er ljóst með rjómagulum blæ og 2-3 borur á hvern mm. Borur eru tiltölulega reglulegar og sívalar og vefurinn milli þeirra álíka þykkur og þær eru víðar. Gró eru glær, sléttveggja, langsporbaugótt, 7-8 x 3,5-4,2 µm að stærð.

Niðurstaða varð sú að þetta væri tegundin Fomitopsis pinicola (Sw.: Fr.) P. Karst., sveppur sem veldur brúnfúa í viði, einkum barrviði en sjaldnar í laufviði. Þetta er fyrsti fundur tegundarinnar hérlendis en hún er algeng víða í Evrópu og Norður Ameríku á barrviði einkum á rauðgreni en vex sjaldnar á viði lauftrjáa en þá einkum á viði birkis og elris. Sveppurinn er sú tegund borusveppa sem er fyrst þeirra að vaxa inn í dauð tré og höggna trjáboli og miðað við það er líklegt að hún hafi flust með viðnum til landsins. Plankarnir hafa örugglega haldist rakir af því að vera í snertingu við jarðveginn og sveppurinn því fengið nokkuð stöðugan raka. Tegundin er slæðingur hérlendis en miðað við það að hún er algeng víða erlendis er líklegt að hún gæti með tímanum breiðst út frá vaxtarstað sínum.

6. júní 2007, Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir, sveppafræðingur