Móahveravist

L12.2 Móahveravist

Eunis-flokkun: Nýr flokkur, tillaga. H6.152 Geothermal heathlands.

Lýsing

Heit og þurr jörð, einkum á hæðum og bungum við gufu- og leirhveri. Þar sem gufu leggur yfir ber hún með sér raka sem getur skapað skilyrði fyrir rakakærar tegundir. Mikilla hitaáhrifa gætir í jarðvegi og þar sem þau eru mest eru mosar ráðandi í þekju. Gróðurþekja er þar yfirleitt sundurslitin og ljósleit leirflög áberandi. Við lægri hita er þekja gróðurs samfelldari og hlutdeild æðplantna meiri.

Plöntur

Fjöldi tegunda er allmikill. Blóðberg er ríkjandi og mjög einkennandi. Grös eru algeng og ber einna mest á skriðlíngresi (Agrostis stolonifera) og vinglum (Festuca). Auk blóðbergs (Thymus praecox subsp. arcticus) er víða að finna hitakæru æðplöntutegundirnar blákollu (Prunella vulgaris) og skammkrækil (Sagina procumbens). Jarðhitategundin naðurtunga (Ophioglossum azoricum) vex víða og einnig grámygla (Gnaphalium uliginosum) en hún er ekki eins algeng. Algengastir mosa eru hraungambri (Racomitrium lanuginosum), engjaskraut (Rhytidiadelphus squarrosus), melagambri (Racomitrium ericoides) og tildurmosi (Hylocomium splendens). Algengustu fléttutegundirnar eru engjaskóf (Peltigera canina), hreindýrakrókar (Cladonia arbuscula) og fjallagrös (Cetraria islandica).

Jarðvegur

Oft ummyndaður næst hverum og þar sem jarðvegshiti er hæstur. Raki í jarðvegi er lítill og undirlag getur verið gropin hraun, skriður eða vikur.

Jarðhiti á 10 cm dýpi

Á bilinu 15–93°C; meðaltal 35°C (n=92).

Útbreiðsla

Vistgerðin finnst í þurrlendi á jarðhitasvæðum. Er aðallega á láglendi og er mun algengari við háhita en lághita.

Fuglar

Lítið sem ekkert fuglalíf.

Verndargildi

Mjög hátt. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.

 

Jarðhitategundir æðplantna – Geothermal vascular plant species within the habitat type
Grámygla Gnaphalium uliginosum
Naðurtunga Ophioglossum azoricum