4. maí 2011. Kristinn Haukur Skarphéðinsson: Saga geirfuglsins

4. maí 2011. Kristinn Haukur Skarphéðinsson: Saga geirfuglsins

Kristinn Haukur Skarphéðinsson, dýravistfræðingur á Náttúrufræðistofnun, flytur erindið „Saga geirfuglsins“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 4. maí kl. 15:15.

Geirfuglar voru feitir og pattaralegir svartfuglar og skyldastir álku. Heimkynni þeirra voru beggja vegna Atlantshafs og urpu þeir einkum á afskekktum og fremur lágum úthafseyjum. Beinafundir og aðrar heimildir benda til þess að geirfuglar hafi verið fremur suðlæg tegund og haldið til frá Miðjarðarhafi og í Flórída í suðri norður til Íslands, Suður-Grænlands og Rússlands. Varpstöðvar þeirra í Evrópu voru m.a. á eynni Sankti Kildu við vesturströnd Skotlands, í Færeyjum, Geirfuglaskeri í Vestamannaeyjum og í skerjum út af Reykjanesi. Helstu varpstöðvarnar undir það síðasta voru hins vegar á Funkeyju við Nýfundnaland. Geirfuglar voru eftirsóttir vegna kjöts, fiðurs og fitu sem sjómenn notuðu sem ljósmeti og var þeim útrýmt með skefjalausri veiði. Menn úr Reykjanesbæ drápu síðustu geirfuglana hér við land í júníbyrjun 1844. Var það gert að undirlagi kaupmanns í Reykjavík sem ætlaði sér að selja fuglana söfnurum sem heitið höfðu háum greiðslum. Síðast sást til geirfugla við Nýfundaland 1852 og þrátt fyrir leit og eftirgrennslann áratugum saman fundust geirfuglar ekki eftir það og hafa þeir því dáið út um miðja 19. öld.

Í fyrirlestrinum mun Kristinn Haukur rekja sögu geirfuglins hér á landi og segja frá uppsetta fuglinum sem keyptur var á uppboði í London og varðveittur er á Náttúrufræðistofnun Íslands. Hann kom til landsins rúmum mánuði áður en Danir skiluðu fyrstu handritinum hingað vorið 1971. Leifar fuglanna sem drepnir voru í Eldey eru varðveittar í dönsku safni líkt og margir íslenskir náttúrúgripir, þar á meðal hamir sjaldgæfra fugla. Þessa gripi þarf þjóðin að endurheimta, ekki síst nú - á 200 ára afmæli Jóns Sigurðssonar - hamina heim !

Upptaka af erindinu misfórst.