22. október 2003. Þóra Hrafnsdóttir: Íslenska rykmýsfánan

22. október 2003. Þóra Hrafnsdóttir: Íslenska rykmýsfánan

Þóra Hrafnsdóttir líffræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands flytur erindi á Hrafnaþingi 22. október 2003.

Kynntar verða niðurstöður nýlokinnar rannsóknar á fjölbreytileika og útbreiðslu tegunda rykmýs, eins mikilvægasta hóps smádýra í ferskvatni á Íslandi. Rykmý (Chironomidae) tilheyrir ættbálki tvívængja (Diptera) og mynda hóp mýflugna ásamt m.a. bitmýi, hrossaflugum,

galdraflugum og moskítóflugum. Einkennandi fyrir

rykmýið eru svermar karlflugnanna, en þeir sverma oft tugþúsundum saman - í makaleit. Mergð þeirra getur orðið slík að svermarnir líkjast rykmekki eða reyk og er nafn flugnanna að öllum líkindum dregið af því. Rykmý er ríkjandi hópur í lífríki ferskvatns og mikilvæg fæða laxfiska og andarunga. Sérstaða rykmýs í íslenskri náttúru er mikil og stafar af norðlægri legu og landfræðilegri einangrun landsins, en hér á landi vantar marga hópa vatnadýra sem eru algengir í ferskvatni í Evrópu.

Flokkunarfræði er undirstaða vistfræðirannsókna og því nauðsynlegt að þekkja tegundafjölbreytileika rykmýs. Löngu er orðið tímabært að gefa út uppfærðan tegundalista og útbreiðslukort fyrir þennan mikilvæga dýrahóp. Til þessa hafa tegundalistar byggt á riti sem gefið var út 1931 og miklar upplýsingar hafa bæst við síðan.

Rannsóknin sýnir að 80 tegundir af rykmýi finnast á Íslandi og þar af eru 20 tegundir sem ekki hefur verið getið um fyrr. Fjallað verður um þessar niðurstöður og útbreiðslukort sýnd fyrir nokkrar tegundir. Einnig verður fjallað um kenningar um uppruna og innflutning íslensku skordýrafánunnar.
Rannsóknina vann Þóra sem mastersverkefni við Kaupmannahafnarháskóla og Nátt
úrufræðistofnun.