22. apríl 2009. Olga Kolbrún Vilmundardóttir: Þróun rofbakka og áfok úr fjörum við Blöndulón

22. apríl 2009. Olga Kolbrún Vilmundardóttir: Þróun rofbakka og áfok úr fjörum við Blöndulón

Olga Kolbrún Vilmundardóttir, landfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun, flytur erindi sitt „Þróun rofbakka og áfok úr fjörum við Blöndulón“ á Hrafnaþingi.

Nýmyndun lóna veldur margs konar breytingum á umhverfinu, bæði neðan vatnsborðs og í næsta umhverfi þeirra á landi. Miklar breytingar verða á búsvæðum sem sökkt er undir vatn og í fjöruborði. Áhrif vatnsins á umhverfið ofan vatnsborðs eru einnig mikil þar sem virk landmótun við strendur fer af stað. Öldur rjúfa bakka og flytja set meðfram ströndum þegar ójafnvægi ríkir milli vatnsins og strandarinnar. Slíkt rofskeið getur varað lengi þar til jafnvægi tekur við.

Blöndulón var myndað í jökulánni Blöndu árið 1991. Það var stækkað árið 1996 og þekur 57 km2 við hæsta vatnsborð. Vöktun á umhverfisbreytingum við lónið hefur staðið yfir frá 1993. Rannsóknir hafa m.a. beinst að landmótunarferlum við lónið en rof úr bökkum og sandfok úr fjörum hefur verið vaktað frá 1997 í um áratug. Markmiðið var að mæla og lýsa þróun bakkarofs við Blöndulón og kanna dreifingu vindborins efnis upp frá strönd lónsins.

Niðurstöður sýna að landbrot vegna öldugangs var örast fyrstu árin eftir myndun lónsins, einkum á svæðum þar sem ölduálag var mikið og þar sem aðdrag móti ríkjandi vindáttum var langt og landhalli talsverður. Slíkar aðstæður voru einkum við norðan- og vestanvert lónið. Þar sem jökulruðningur var í jarðgrunni höfðu myndast allstöðugir bakkar en stórgrýttur og þéttur jökulruðningur veitti vörn gegn öldu. Þar hefur dregið verulega úr rofi. Síðari ár hefur mikið landbrot haldið áfram úr bökkum úr jökulárseti þar sem ölduálag var tiltölulega lágt við sunnanvert lónið. Bakkar voru óstöðugir, setið laust og veitti lítið viðnám gegn öldugangi. Helstu ferlar sem mótuðu rofbakka lónsins voru öldurof og setflutningur vegna ölduhreyfinga, vatnsrof vegna úrkomu sem og kulferli.

Áfok úr fjörum átti sér yfirleitt stað snemmsumars á stöðum sem voru opnir mót suðlægum, þurrum vindáttum. Á þeim tíma er vatnsborð lónsins lágt og fjörur á þurru. Halli og stefna móti vindátt takmarkaði dreifingu fokefnis. Árið 2008 var heildarútbreiðsla fokefnis áætluð 21 ha og rúmmál þess um 11.000 m3. Fokefnið settist til í mólendisgróðri og var þykkast næst strönd og þynntist er fjær dró. Uppruni fokefnis var mestmegnis í gjóskulögum í jarðvegi sem hafði rofnað vegna öldugangs. Endurtekið áfok hefur átt sér stað upp frá víkum þar sem sandurinn safnast fyrir á lygnum svæðum í lóninu.

Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að enn sé virkt öldurof við strendur lónsins 12 árum eftir stækkun þess. Strandlínan er þó að þróast í átt til jafnvægis. Áfok og landbrot er tengt vatnsborðssveiflum. Fyrri hluta sumars er lágt í lóninu og sandur sem sest hefur til inn á víkum er þá óvarinn gegn vindrofi. Vatnsborð nær hámarki síðsumars eða að hausti og þá verður öldurof virkt, einkum í miklum hvassviðrum. Líklegt er að áfokshætta verði áfram næstu árin, þótt dragi úr landbroti.

Rannsóknirnar við Blöndulón hafa verið unnar fyrir Landsvirkjun en þær hafa einnig verið styrktar af Rannsóknarnámssjóði Rannís.