13. febrúar 2013: Sigmundur Einarsson og Kristján Jónasson: Eldstöðvakerfið við Krýsuvík og tengslin við höfuðborgarsvæðið

13. febrúar 2013: Sigmundur Einarsson og Kristján Jónasson: Eldstöðvakerfið við Krýsuvík og tengslin við höfuðborgarsvæðið

Sigmundur Einarsson og Kristján Jónasson, jarðfræðingar á Náttúrufræðistofnun Íslands, flytja erindi sitt „Eldstöðvakerfið við Krýsuvík og tengslin við höfuðborgarsvæðið“ á Hrafnaþingi, miðvikudaginn 13. febrúar kl. 15:15.

Eldstöðvakerfið, sem oftast er kennt við Krýsuvík, einkennist af um 50 km langri sprungurein sem teygir sig frá sjó við Grindavík norðaustur yfir Reykjanesskaga um Móhálsadal og Undirhlíðar, Kaldárbotna og Elliðavatn, allt að Reykjum í Mosfellssveit.  Norðaustantil er sprungureinin aðeins 2-4 km á breidd en suður við sjó er breidd þess allt að 10 km.

Sprungureininni fylgir mjórri gosrein sem er um 30 km löng og nær hún einnig frá sjó í suðvestri og teygir sig allt til Búrfells og Helgafells ofan við Hafnarfjörð.  Síðast gaus í Krýsuvíkurkerfinu á 12. öld. Þá runnu hraun til sjávar bæði á suður- og norðurströnd Reykjanesskaga. Hin upprunalega Krýsuvík fylltist af hrauni og Kapelluhraun rann til sjávar við Straumsvík. Jafnframt urðu hreyfingar á sprungukerfinu sem liggur sunnan við höfuðborgarsvæðið. 

Fyrir um 8000 árum rann hraun frá gosreininni til sjávar í Hafnarfirði og Skerjafirði og stendur hluti byggðar í Hafnarfirði og Garðabæ á þessu hrauni. Byggð og iðnaðarsvæði í Hafnarfirði sunnan við Hvaleyrarholt standa á yngri hraunum sem flest hafa runnið frá gosrein Krýsuvíkureldstöðvarinnar. Yngsta hraunið sunnan við Hvaleyrarholt er frá 10. öld, komið frá gígum í Grindarskörðum sem tilheyra eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla .

Sprungurein Krýsuvíkureldstöðvarinnar  ræður mestu um streymi grunnvatns á vatnstökusvæðum á öllu höfuðborgarsvæðinu og jafnframt ræðst tilvist jarðhitasvæðisins á Reykjum í Mosfellssveit af þessum sprungum.

Hraunrennsli frá eldstöðvakerfi Krýsuvíkur getur vissulega ógnað byggð á höfuðborgarsvæðinu en þetta sama eldstöðvakerfi skapar um leið mikilvægar forsendur fyrir þeirri byggð sem þar hefur risið.

Fyrirlesturinn á Youtube