Birkiþélan eflist

Þetta nýja meindýr er æðvængja sem kallast birkiþéla (Scolioneura betuleti). Menn áttuðu sig fyrst á tilvist hennar hér sumarið 2017 en ekki var vitað hvenær hún fyrst kom sér fyrir. Þess hafði þó orðið vart nokkrum árum áður að birkilauf voru farin að holast innan síðsumars svipað og gerðist af völdum birkiþélunnar (Heringocrania unimaculella) snemma sumars. Sú tilgáta var viðruð að komin væri fram önnur kynslóð birkikembu en það gat engan veginn staðist.

Birkiþélan hagar sér svipað og birkikemban þó með þeim sé enginn skyldleiki. Þélan verpir í nýju laufin á miðju sumri og leikur þau illa á sama hátt og fiðrildið. Gefur það auga leið að nái birkið ekki heilbrigðu laufskrúði allt sumarið, verður minni ljóstillífun sem væntanlega dregur úr vexti trjánna, fræþroska og nauðsynlegum undirbúningi undir vetrarmánuðina. Og þau eru mörg fleiri smádýrin sem plaga birkið, slík er eftirsóknin í  ávexti þess, laufblöð, rekla og fræ.

Nú er ekki öll sagan sögð af birkiþélunni. Á auðu svæði í Selásnum í Reykjavík vaxa fjölmargir runnar af sitkaelri sem er gjarnan talin smávaxin undirtegund grænelris (Alnus viridis). Heimkynni sitkaelris (Alnus viridis ssp. sinuata) eru í vestanverðri Norður-Ameríku og austast í Síberíu en það hefur verið ræktað hér í görðum og náð að dreifa sér frá þeim. Elri (Alnus) og birki (Betula) eru náskyldar ættkvíslir af bjarkarætt (Betulaceae). Skyldleikinn er greinilega nægur til að birkiþélan getur nýtt sér elrið á sama hátt og birkið.

Sumir elrirunnanna í Selásnum eru nú illa leiknir af völdum birkiþélunnar. Við athugun þann 22. ágúst 2019 kom í ljós að víða voru hin stóru laufblöð elrisins fullkomlega holuð innan og sölnuð og víðast hvar voru lirfurnar skriðnar út. Þó mátti enn finna lirfur í sumum blaðanna og þá yfirleitt fleiri en eina.

Á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands má fræðast frekar um birkiþélu og birkikembu.