Surtseyjarleiðangur líffræðinga 2019

Surtsey kemur vel undan þurrkatíð sumarsins. Rannsóknir líffræðinga í eynni undanfarna daga sýndu að sem fyrr er gróður þar í mikilli sókn. Á hverju ári má merkja aukna útbreiðslu graslendis en það nýtur góðs af öflugri áburðargjöf máfa sem hreiðrað hafa um sig á strangfriðaðri eynni. Máfavarpið er þó að taka breytingum. Ein ný plöntutegund fannst að þessu sinni í eynni og tvær nýjar pöddutegundir eru þegar komnar í ljós.

Árlegur leiðangur líffræðinga Náttúrufræðistofnunar Íslands til Surtseyjar var farinn 14.–18. júlí. Í leiðangrinum var að vanda sérfræðingur frá Landbúnaðarháskóla Íslands, einnig tveir fornleifafræðingar og landvörður frá Umhverfisstofnun. Árleg vöktun á landnámi plantna og dýra fór fram á hefðbundinn hátt.

Gróður

Uppskerumælingar fóru fram í föstum mælireitum vítt og breytt um eyna og jafnframt var ljóstillífun plantna og virkni í jarðvegi mæld. Sem fyrr var markvisst leitað og skráðar tegundir æðplantna í eynni. Ein ný tegund kom í leitir en nýjar tegundir fundust síðast árið 2015. Um hóffífil var að ræða. Sölnuð laufblöð sýndu að hann hafði einnig verið þar í fyrra sumar. Líklegt er að hann hafi borist fyrir vindum til eyjarinnar. Alls fundust nú 62 tegundir æðplantna á lífi. Tvær tegundir, hnjáliðagras sem hafði vaxið á eynni í áraraðir og ljónslappi sem fannst nýr 2015, fundust nú ekki á lífi. Því hafði fækkað um eina tegund frá 2018. Síðastliðin fjögur ár hefur tegundafjöldi háplantna í eynni nánast staðið í stað sem bendir til að verulega hafi hægt á landnámi nýrra tegunda.

Mikil gróska var í graslendinu í máfabyggðinni. Það eykst ár frá ári, einkum suðaustur eftir eynni og til norðurs upp í aðliggjandi sandorpnar brekkur stóru gíganna tveggja. Máfabyggðin nærir graslendið með driti fuglanna og fæðuleifum. Í sandorpnu hraununum sem jafnan þola illa langtíma þurrka hafði melagróður þést verulega og ekki liðið fyrir þurrka sumarsins. Þar eru holurt, hundasúra og melablóm í mikilli sókn. Svipaða sögu er að segja af gróðri á tangaflötinni á norðanverðri eynni. Samfélag plantnanna með melgresi, fjöruarfa, blálilju og fjörukáli þéttist og eflist með hverju árinu. Leikur grunur á að útselir sem þar skríða á land á haustin til að kæpa hafi áhrif á framvindu og grósku vegna áburðaráhrifa sem sem fylgja þeim. Þess má geta að ætihvönn á tanganum var þar með þroskaða fræsveipi en það er í þriðja sinn sem hvönn nær þeim þroska. Einnig vakti athygli að nokkrar krækilyngsplöntur í hraununum voru teknar að þroska ber.

Fuglar

Máfabyggðin þétta á suðurhluta eyjarinnar virðist vera að taka töluverðum breytingum. Sílamáfur og silfurmáfur voru þar frumbyggjar á níunda áratugnum. Þeir hrekjast undan svartbak sem er stærri og öflugri úr þéttasta graslendinu í gamla varpinu út á minna gróið hraun. Eftir því sem gróðri hefur fleygt fram í nýju varplandi sílamáfs hefur svartbakurinn fylgt honum eftir og tekið yfir varplandið hans.

Löngum var talið að stofnar svartbaks og sílamáfs hafi verið ámóta fjölliðaðir en svo er ekki lengur. Ætla má að svartbakspör séu nú 100–200, sílamáfs um 40–50 og stofn silfurmáfs enn fáliðaðri, ef til vill um 20 pör næst bjargbrúnum. Í varpinu var fjöldi svartbaksunga og margir komnir á flug eða við það að taka fyrstu vængjatökin. Silfurmáfsungar voru minna áberandi og skemmra komnir í þroska. Sama er um unga silfurmáfs að segja.

Fýll var í góðum málum og verpir nú undir hraunhellum mun víðar inni á eynni en áður. Varp hans í gígunum var einnig með besta móti sem væntanlega tengist því að hrafn kom ekki upp ungum þetta sumarið þrátt fyrir að hafa byggt veglegan laup í stóra gígnum. Hrafninn hefur átt veiðilendur í fýlabyggðum gíganna. Þúfutittlingar voru óvenju fjölliðaðir og var talið að varpóðul væru a.m.k fjögur. Maríuerlur voru með uppkomna unga, sennilega eitt par. Töluvert var af snjótittlingum, allnokkur pör og víða fleygir ungar á ferð. Teistur verpa í björgum sem fyrr og voru margar á sjó við eyna. Litið var eftir lunda með bjargbrúnum en lítið sást af honum. Fréttir hafa þó borist af einum sílisfugli í hömrum á vestanverði eynni sem bendir til að hann sé þar í varpi.

Undanfarin ár hefur æðarkolla haldið sig uppi á eynni og einu sinni tekist að leiða unga til sjávar svo vitað sé. Ein kolla var nú á sjónum á þeim slóðum þar sem ungar voru leiddir út til sunds á sínum tíma. Heiðlóa sýndi söngflug við stóra gíginn og heyrðist til hennar víðar á eynni. Varla hafði verið um varp að ræða en heiðlóuhreiður hefur fundist á eynni í eitt skipti. Á tanganum var fáliðaður hópur vaðfugla, tildrur, sendlingar og ein sanderla.

Smádýr

Smádýralífið var kannað á hefðbundinn hátt með fallgildrum í gróðurmælireitum og víðar, tjaldgildru í máfavarpi, háfun í gróðurlendum og var smádýra leitað undir steinum í hraunum og rekaviði á tanganum. Veður var óhagstætt framan af til að leita smádýra. Þegar birti til og hlýnaði komst fjöldi fiðrilda á flug, grasvefarar í máfabyggðinni, víðiglæður og kálmelir í sandorpnum hraunum. Tvö skrautleg þistilfiðrildi frá suðrænum löndum sáust á flögri. Tvær nýjar pöddutegundir litu dagsljósið, annars vegar hvannuxi sem er bjöllutegund af ætt jötunuxa en hins vegar og mjög óvænt áttfætlan langleggur. Þó hann sé algeng tegund á landinu og útbreidd var ólíklegt talið hann myndi berast svo langt á haf út til að nema nýtt land. Tvö eintök fundust og bendir það til þess að langleggurinn sé mættur til leiks í eynni.

Nýir liðsmenn í Surtsey

Það telst til tíðinda í rannsóknum í eynni að tveir fornleifafræðingar voru með í för, Þóra Pétursdóttir frá Háskólanum í Tromsö í Noregi og Birna Lárusdóttir hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Markmið þeirra var að skoða hvaða mark maðurinn setur á landslag í eynni, bæði með örnefnum, slóðum sem markast á yfirborði og mannvirkjum á borð við skála og þyrlupall en ekki hvað síst reka af ýmsu tagi sem að miklu leyti er úr plastefnum.

Daníel Freyr Jónsson starfsmaður Umhverfisstofnunar hefur tekið við eftirliti í eynni af Þórdísi V. Bragadóttur. Var þetta fyrsta ferð Daníels til eyjarinnar. Meðal verka hans var að hreinsa fjörur af ýmsu drasli sem rekið hafði upp frá síðasta ári. Þar voru um 50 netakúlur, nokkrir netabelgir, plastflöskur og fleira sem lítill sómi er að. Það sem safnaðist var flutt til Heimaeyjar í lok ferðar þar sem því verður fargað. Frá árinu 2016 hefur rusl verið hreinsað úr fjörum Surtseyjar og af tanganum á hverju sumri. Átti Surtseyjarfélagið frumkvæði að því.