Selalátur við strendur Íslands

Látur eru strandsvæði sem selir leita á til að kæpa, sinna uppeldi kópa, hafa feldskipti og hvílast. Selir eru nokkuð fastheldnir og sækja yfirleitt í sama látrið ár eftir ár. Tvær tegundir sela eru við Íslandsstrendur árið um kring, landselur (Phoca vitulina) og útselur (Halichoerus grypus) en nokkrar aðrar selategundir eru misalgengir flækings- eða farselir. Hér á landi hefur verið fylgst nokkuð reglulega með breytingum á stofnstærð landsels með talningum síðan 1980, og útsels síðan 1982. Landselir hafa verið taldir í látrum miðsumars, þegar þeir hafa feldskipti, en útselir að hausti um kæpingartímann.

Kortlagning á selalátrum er byggð á talningagögnum síðustu áratuga en út frá þeim má greina megindrætti í útbreiðslu og stærð selalátra umhverfis landið. Í ritinu sem nú er komið út er gerð grein fyrir kortlagningunni og birt útbreiðslukort yfir selalátur og fjölda sela en nákvæmari kort eru aðgengileg á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Selalátur við strendur Íslands (pdf)

Kortasjá

Hægt er að nálgast prentað eintak af ritinu í afgreiðslu stofnunarinnar.