Fyrirlestrar um framandi og ágengar tegundir

Nánari upplýsingar um erindin:

Náttúruvernd og innrás ameríska minksins Neovison vison í Pólland

Fyrirlesari: Jakub Skorupski, PhD, Eng. - Green Federation "GAIA"; Institute for Research on Biodiversity, University of Szczecin; Polish Society for Conservation Genetics LUTREOLA.

Minkurinn (Neovison vison) er tegund sem átti óvenjulega góðri vistfræðilegri velgengni að fagna á 20. öldinni. Það sést bæði á gífurlegri aukningu á útbreiðslu dýranna og aðlögun þeirra að nýjum heimkynnum. Það sem veldur þessu fyrst og fremst er aukin og alþjóðleg minkarækt, sem ýtir undir dreifingu tegundarinnar utan náttúrulegra heimkynna. Um miðja síðustu öld urðu menn fyrst varir við mink úti í villtri náttúru í Póllandi. Á innan við 60 árum náði hann að dreifast um nær allt landið en landnámið er þó enn í gangi. Hröð útbreiðsla tegundarinnar hefur valdið mjög alvarlegum vistfræðilegum vandamálum sem tengjast fyrst og fremst ránlífi, samkeppni og yfirgangi gagnvart innlendu dýralífi, auk þess sem minknum fylgir veirusjúkdómurinn plasmacytosis (Aleutian disease) sem veldur einkennum í minkum og öðrum marðardýrum.

Útbreiðsla hins ameríska minks er orðin svo mikil í Póllandi að ekki er lengur mögulegt að útrýma honum varanlega. Þess vegna er mælt með sérstökum aðgerðum á völdum svæðum, t.d. útrýmingaráætlunum á viðkvæmum svæðum (t.d. varpsvæðum vatnafugla), stjórnun á stofnstærð, eflingu á stofnum náttúrlega óvina og keppinauta, og stuðla að bættum lífskjörum fyrir tegundirnar sem minkurinn veiðir.

Það mikilvægasta sem ber að hafa í huga við vöktun og áætlanir gegn ágengum tegundum, eins og mink, er að hafa stjórn á því að búrdýr sleppi ekki út í náttúruna og að til séu viðurkenndar aðferðir til að auðkenna dýrin á einfaldan hátt. Jafnframt er mikilvægt að vinna heildstætt og kerfisbundið að því að leysa vandamálið, til að uppfylla skyldur Póllands sem felast í alþjóðasamningum og lögum Evrópusambandsins.

Aðfluttar og ágengar fiskitegundir í suðvesturhluta Eystrasaltsríkjanna

Fyrirlesari: Remigiusz Panicz, PhD, Eng. - West Pomeranian University of Technology, Szczecin.

Í suðvesturhluta Eystrasaltsríkjanna hafa verið skráðar 20 framandi og blandaðar fiskitegundir. Lýst hefur verið innflutningsleiðum tegundanna, uppruna þeirra og áhrifum á vistkerfið. Stærsta uppspretta þessara framandi tegunda er fiskeldi, sem náði hámarki á 20. öld, en fyrstu heimildir um slíkt eru frá 13. öld. Flestar tegundirnar eru af ætt styrja (Acipenseridae) og blendinga þeirra, gljáfiskaætt (Polyodontidae), laxaætt (Salmonidae), vatnakarpaætt (Cyprinidae), gedduætt (Pangasiidae), kýtlingaætt (Gobiidae) og tunglfiskaætt (Centrarchidae).

Fjallað verður um rannsókn sem gerð var í Vestur-Pomeraníuhéraðinu í Vestur-Póllandi. Héraðið er útbreiðslustöð ágengra tegunda, því þar er volgur frárennslisskurður Dolna Odra-virkjunarinnar, sem virkar eins og „heit eyja“, þar sem skilyrði eru hagstæð fyrir framandi fiskitegundir.