Fuglamerkingar 2016

Árið 2016 var 96. ár fuglamerkinga á Íslandi og fer Náttúrufræðistofnun Íslands með umsjón þeirra. Frá upphafi hafa alls verið merktir 697.347 fuglar af 156 tegundum en árið 2016 voru tvær tegundir merktar í fyrsta sinn; brandandarungar (Tadorna tadorna) voru merktir í Svefneyjum á Breiðafirði og hrístittlingur (Emberiza rustica) var merktur í fuglaathugnarstöð Suðausturlands í Einarslundi.

Þær tegundir sem mest var merkt af á árinu voru 3810 auðnutittlingar, 2051 skógarþröstur, 1852 kríur, 1007 ritur og 766 lundar. Vonandi endurspeglar næstmesti fjöldi merktra kría frá upphafi (38 fullvaxnir og 1813 ungar) að varpárangur sé loksins að lagast hjá þeim, en ekki hafa verið merktar fleiri á einu ári síðan 2009.

Alls endurheimtust 29 fuglar með erlend merki á árinu; 21 frá Bretlandseyjum, 5 frá Noregi og eitt merki frá hverju eftirtalinna; Belgíu, Hollandi og Portúgal. Auk þess hafa hundruð litmerkja verið lesin af ýmsum fuglategundum sem merktar hafa verið hérlendis og erlendis.

Tilkynnt var um endurfundi tveggja íslenskra kría erlendis frá á árinu. Í júlí var lesið á stálmerki ársgamallar kríu á Seal Island í Maine-fylki í Bandaríkjunum og í nóvember fannst aðframkomin fullorðin kría í Linharesborg í Brasilíu sem dó skömmu síðar. Fuglinn var 9399 km frá merkingastað og mesti ferðalangur ársins og er þetta jafnframt 10. lengsta skráða ferðalag íslensks fuglamerkis frá upphafi. Tilkynnt var um nokkra aðra fugla sem náðust eða sáust mjög fjarri merkingarstað, t.d. spóa í Senegal, tvo litmerkta sílamáfa í Gambíu og sanderlu í Máritaníu.

Sett voru nokkur ný íslensk aldursmet. Álftin BXN sást í maí í Bárðardal, þá 29 ára og 11 mánaða. Ekki er eldri álft að finna á lista EURING yfir evrópsk aldursmet. Tuttugu og níu ára gömul stormsvala endurheimtist í merkingarleiðangri í Elliðaey í ágúst og tæplega fjögurra ára gamall auðnutittlingur á Húsavík.

Ítarlegri frásögn má finna í skýrslunni Fuglamerkingar 2016 (pdf).

Verkefnið fuglamerkingar.