Styttist í birkifrjó

Trjáplöntur eru nú víða farnar að blómstra og frjókorn að dreifast. Þeir sem þjást af frjóofnæmi ættu að fylgjast með sínu nánasta umhverfi.

Á höfuðborgarsvæðinu er elri búið að blómstra á flestum stöðum. Í maíbyrjun hafa lyng- og víðifrjókorn verið algengustu frjókornin í frjógildrunni í Garðabæ. Víða í görðum er alaskaösp farin að blómgast og frjó byrjuð að dreifast. Aspar- og víðifrjó geta valdið ofnæmi hjá viðkvæmum en eru ekki talin vera mjög skæð.

Nú styttist í að birki þroskist og að karlreklar opnist en við hagstæð veðurskilyrði gæti það gerst á næstu dögum. Birkið er lengra á veg komið í skjólgóðum görðum en úti á bersvæði. Hagstæð veðurskilyrði eru þurrt veður og sólskin en frjókornin dreifast með vindi. Birki er þekktur ofnæmisvaldur, frjóin eru smá og dreifast mjög víða, jafnvel milli landa. 

Á Akureyri er fjöldi trjátegunda byrjaður að blómstra enda hefur veður þar verið milt síðastliðna daga. Einkum er um að ræða tegundirnar elri og víði. Alaskaöspin er einnig farin að blómstra víða og fer sennilega að dreifa frjókornum sínum fljótlega ef veðrið helst áfram milt.

Norðan heiða byrjar birki venjulega að blómstra aðeins seinna og er það háð veðri hvenær karlreklarnir opna sig. 

Fylgjast má með frjókornatalningum í Urriðaholti og á Akureyri á vef stofnunarinnar og er fólk með ofnæmi hvatt til að fylgjast með nánasta umhverfi sínu.