Nýjar tegundir í flóru íslenskra vatnaplantna

Alls eru nú þekktar sex tegundir kransþörunga hér á landi. Til samanburðar eru þekktar níu tegundir á Grænlandi og 30-40 tegundir í Noregi og Svíþjóð. Kransþörungar eru í hópi grænþörunga og ljóstillífa líkt og háplöntur. Þeir eru stórvaxnastir allra þörunga í ferskvatni; sumar tegundir geta orðið allt að metri að lengd á meðan aðrar eru mun smávaxnari. Nafn sitt draga kransþörungar af greinakrönsum sem sitja með reglulegu millibili á grönnum stönglinum. Þeir eru algengir í tjörnum og stöðuvötnum þar sem þeir vaxa á kafi í vatni og mynda oft stórar breiður eða flækjur á botninum. Nokkrar tegundir lifa í ísöltu vatni.

Tegundin Tolypella canadensins hefur norðlæga útbreiðslu og lifir í köldum og næringarsnauðum vötnum. Hér á landi virðist tegundin bundin við hálendisvötn, en hún fannst í sjö vötnum á heiðum norðan-, vestan- og sunnanlands.

Tegundin Chara aspera er útbreidd um allt norðurhvelið, bæði í ferskvatni og ísöltu vatni. Til þessa hefur tegundin aðeins fundist í Skúmsstaðavatni í V-Landeyjum sem er ekki fjarri sjó.

Rannsókn Náttúrufræðistofu Kópavogs er hluti af umfangsmiklu verkefni á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands sem kallast Natura Ísland. Meginmarkmið þess er að efla þekkingu á vistgerðum landsins, í fjöru, vatni og á landi, í því skyni að stuðla að skynsamlegri umgengni og notkun á gæðum náttúrunnar. Í verkefninu er verndargildi og verndarþörf vistgerða og tegunda metin og lagðar fram tillögur um verndarsvæði. Einn þáttur verkefnisins snýr að tegundasamsetningu og útbreiðslu vatnagróðurs í landinu og er um að ræða fyrstu skipulegu rannsóknina af þessu tagi hér á landi. Náttúrufræðistofa Kópavogs kemur að þeim verkhluta og hófust rannsóknir árið 2012. Gróður hefur verið kannaður í samtals 72 stöðuvötnum og 16 straumvötnum víðs vegar á landinu og úrvinnsla stendur nú yfir.

Frétt Náttúrufræðistofu Kópavogs um nýju tegundirnar.