Ný aðferð við að meta stofnstærð nagdýra

Bayesian-tölfræðigreining hefur fram til þessa aðallega verið notuð á dýr sem eru veidd og nota fiskifræðingar hana gjarnan til að meta stærðir fiskistofna. Matið byggir á að þekkja aldur dýranna þegar þau eru veidd og hjá fiskum er aldurinn metinn út frá greiningu á kvörnum.

Vaxtarkúrfur eru þekktar úr rannsóknum villtra stofna og af rannsóknastofum og með þeim má rekja sig aftur frá dánardegi til fæðingardags hvers einstaklings. Bayesian-tölfræðigreining hefur aldrei áður verið prófuð á skammlífum dýrum eins og músum og aðeins í örfá skipti hefur henni verið beitt á lifandi dýr.

Aðferðin var prófuð á íslenskum hagamúsum en stofnstærð þeirra sveiflast mjög eftir árstímum. Á vorin er stofninn lítill þar sem mikil afföll eru yfir veturinn og tímgun ekki hafin. Á sumrin er veiðin dræm en á haustin veiðist mikið af músum af öllum kynslóðum sumarsins.

Hefðbundnar aðferðir sýndu mælanlegan vöxt í stofninum vegna nýliðunar um 100 dögum seinna en Bayesian-aðferðin.

Niðurstöðurnar geta komið að góðu gagni þegar meta á stofnstærðir dýra sem erfitt er að veiða á ákveðnum tímabilum. Einnig er mikilvægt út frá verndunarsjónarmiðum að hægt sé að beita aðferðunum með því að mæla dýrin án þess að deyða þau.

Greinin í fullri lengd (gegnum landsaðgang að rafrænum tímaritum)

E.R. Unnsteinsdottir, P. Hersteinsson, J.P. Jonasson og B.J. McAdam. Using Bayesian growth models to reconstruct small-mammal populations during low-trapping periods. Journal of Zoology (2014), http://onlinelibrary.wiley.com/doi/10.1111/jzo.12096/abstract