Suðrænn gestur Náttúrufræðistofnunar
Íslands

Fregnin af herfuglinum barst sem eldur í sinu til fuglaskoðara á höfuðborgarsvæðinu og var fjölmenni mætt á vettvang innan skamms tíma. Það var spígsporað um völlinn allt í kringum húsið með sjónauka og aðdráttarlinsur og fuglsins leitað. Leitin bar árangur að lokum. Harðir fuglaskoðarar gátu því fagnað góðum degi í gærkvöldi.


Herfugl í Urriðaholti. Ljósm. Erling Ólafsson

Herfugl er einstakur og engum öðrum fugli líkur. Eins og segir í Fuglabók Almenna bókafélagsins, forvera annarra fuglabóka um íslenska fugla: „Bæði kyn eru rauðbleik á lit með áberandi, svörtum og hvítum þverbeltum á vængjum og stéli. Nefið langt og bogið, og á höfði mynda svartyddar fjaðrir háan, ýfanlegan kamb.“ Herfugl heldur sig á bersvæði þar sem hann hefur yfirsýn til allra átta og tínir æti af jörðinni. Hann er í eðli sínu var um sig. Það gildir sannarlega um gestinn okkar á Urriðaholti sem hélt sig enn hjá okkur daginn eftir. Hann virðist sækja að húsinu í von um að finna æti í runnabeðum umhverfis það en er fljótur að forða sér við minnstu styggð. Lætur sig þá hverfa út yfir holtið með hægum, flöktandi vængjatökum á breiðum vængjum sínum, áberandi röndóttum.

Fyrsti herfuglinn fannst hér á landi árið 1901 í Mývatnssveit.