Vefsíðan Flóra Íslands endurbyggð

Hörður Kristinsson grasafræðingur smíðaði síðuna upphaflega í vefsíðuforritinu Frontpage á árunum 1998 til 1999 en sá hugbúnaður er nú að verða forngripur og fáar vefhýsingar styðja hann lengur. Síðan var fyrst opnuð á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands árið 1999 og aðgengileg flóruvinum með lykilorði. Árið 2001 var síðan opnuð á vefslóðinni www.floraislands.is.

Hörður hefur frá upphafi séð um viðhald og viðbætur á vefsíðunni en Náttúrufræðistofnun Íslands keypti lénið árið 2003 og hefur greitt af því öll gjöld síðan. Á síðunni eru upplýsingar og myndir af um það bil 900 tegundum villtra íslenskra plantna, þ.e. öllum blómplöntum og byrkningum en einnig allmörgum mosum, fléttum og sveppum. Þar er einnig að finna útbreiðslukort flestra tegunda gerð eftir 5x5 km reitkerfi, lista yfir allar þekktar íslenskar plöntur og upplýsingar fyrir flóruvini um reitakerfin sem notuð eru við plöntuskráningar. Hægt að sjá framvindu skráningar og skoða lista yfir þær plöntur sem skráðar hafa verið í hverjum reit. Að lokum er þarna haldið utan um Dag hinna villtu blóma sem flóruvinir standa fyrir á ári hverju.